Juan Ramon vann á sjónarmun

uan Ramon Bor­ges úr Breiðabliki var svo fyrstur karla í ...
uan Ramon Bor­ges úr Breiðabliki var svo fyrstur karla í hnífjöfnu hlaupi er hann vann Ísak Óla Traustason, UMSS, á sjónarmun en þeir báðir hlupu á 7,07 sekúndum. mbl.is/Árni Sæberg

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, var fyrst í mark í 60 metra hlaupi kvenna á Meistaramóti Íslands innanhúss í frjálsíþróttum en mótið fer fram í Kaplakrika og hófst í dag. Þá var Juan Ramon Borges fljótastur í 60 metra hlaupi karla en hann vann Ísak Óla Traustason á sjónarmun.

Guðbjörg hljóp á 7,54 sekúndum og því aðeins frá Íslandsmeti Tiönu Ósk Whitworth, 7,47 sek­únd­ur, sem hún setti í fyrra. Búist var við að Guðbjörg og Haf­dís Sig­urðardótt­ir, UFA, myndu berjast í þessari grein og var Hafdís í öðru sæti á tímanum 7,67. Andrea Torfadóttir, FH, var þriðja en hún hljóp á 7,69.

Juan Ramon Bor­ges úr Breiðabliki var svo fyrstur karla í hnífjöfnu hlaupi er hann vann Ísak Óla Traustason, UMSS, á sjónarmun en þeir báðir hlupu á 7,07 sekúndum. Þriðji var Guðmundur Ágúst Thoroddsen á tímanum 7,12.

Mark Wesley John­son, ÍR, sem nýlega dró skóna fram úr hillunni varð efstur í stangarstökki karla er hann stökk hæst 4,50 metra en Guðmundur Karl Úlfarsson úr Ármanni var annar (4,30) og Þorvaldur Tumi Baldursson þriðji (4,10).

Í hástökki kvenna var svo María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, efst er hún stökk 1,7 metra. Besti árangur hennar er 1,75 sem hún stökk á Norðurlandamótinu innanhúss fyrr í mánuðinum. Kristín Liv Svabo Jónsdóttir, sem áður hefur stökkið 1,7, varð að láta sér annað sætið duga í dag er hún stökk 1,67 metra. Þá var Helga Þóra Sigurjónsdóttir úr Fjölni þriðja en hún stökk 1,64 metra.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, var fyrst í mark í 60 ...
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, var fyrst í mark í 60 metra hlaupi kvenna. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is