Erfið leið Anítu, Ásdísar og fleiri á ÓL í Tókíó

Aníta Hinriksdóttir keppti í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í …
Aníta Hinriksdóttir keppti í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016. mbl.is/Eggert

Ólympíufararnir Aníta Hinriksdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir og Guðni Valur Guðnason, sem og annað íslenskt frjálsíþróttafólk, þurfa að bæta sinn besta árangur til að ná ströngum lágmörkum fyrir Ólympíuleikana sem fram fara í Tókíó 2020, eftir 500 daga.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur tekið í notkun nýja heimslista í hverri grein frjálsíþrótta og er ætlunin að 50% keppenda í Tókíó komist á leikana með því að ná fyrir fram ákveðnum lágmarksárangri, en hin 50% verði valin út frá stöðu á heimslista skömmu fyrir leikana.

Fimm Íslandsmet hefðu dugað

Þess vegna eru lágmörkin fyrir þessa leika enn strangari en áður. Ef þau eru borin saman við Íslandsmet þá eru Íslandsmetin betri en lágmörkin í aðeins fimm greinum. Þannig hefði Íslandsmet Péturs Guðmundssonar í kúluvarpi (21,26 metrar) dugað, Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar í kringlukasti (67,64 m), Íslandsmet Einars Vilhjálmssonar í spjótkasti (86,80 m), Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í tugþraut (8.573 stig) og Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur í 400 metra grindahlaupi (54,37 sekúndur).

Lágmörkin í hverri grein karla og kvenna fyrir ÓL í …
Lágmörkin í hverri grein karla og kvenna fyrir ÓL í Tókíó 2020.

Sex Íslendingar eru í hópi 100 efstu á heimslista í sinni grein í dag, en ekkert þeirra hefur náð árangri sem jafnast á við lágmörkin sem gefin hafa verið út. Þau munu hafa tíma frá 1. maí í vor til 29. júní 2020 til að ná lágmarki inn á leikana, en þurfa annars að treysta á góða stöðu á heimslista. Eins og staðan er núna er útlit fyrir að heimslistarnir verði leið Íslendinganna á leikana.

Ásdísi og Guðna vantar hálfan metra upp á

Íslandsmet Ásdísar í spjótkasti er 63,43 metrar en lágmarkið í greininni fyrir ÓL í Tókíó er 64 metrar. Aníta þyrfti að hlaupa 800 metra á 1:59,50 en Íslandsmet hennar er 2:00,05 mínútur. Hún er jafnframt rúmum tveimur sekúndum frá lágmarkinu í 1.500 metra hlaupi.

Hafdís Sigurðardóttir á Íslandsmetið í langstökki, sem er 6,62 metrar, en það er 20 sentímetrum undir lágmarkinu fyrir ÓL.  Guðni Valur Guðnason hefur lengst kastað kringlu 65,53 metra en þyrfti að kasta 66 metra. Sindri Hrafn Guðmundsson hefur kastað spjóti 80,91 metra en þyrfti að kasta 85 metra. Hilmar Örn Jónsson hefur svo kastað sleggju 72,38 metra en þyrfti að kasta 77,50 metra til að ná lágmarki og komast á ÓL án þess að þurfa að hugsa um stöðu á heimslista.

Guðni Valur Guðnason kastar á Ólympíuleikunum í Ríó.
Guðni Valur Guðnason kastar á Ólympíuleikunum í Ríó. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert