„Þetta er bara stríð“

Akureyringar fögnuðu sætum sigri í kvöld.
Akureyringar fögnuðu sætum sigri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Bandaríkjamaðurinn Jordan Steger fékk engan frið til að borða samlokuna sína eftir leik SA og SR í kvöld. Jordan var í sigurliði SA en úrslitaeinvígið í íshokkí hófst á Akureyri í kvöld. SA vann 3:2 í framlengdum leik og Akureyringar eru því með 1:0 forystu í einvíginu.

Jordan var fenginn í stutt spjall.

Þið unnuð deildina nokkuð örugglega en nú er allt annað mót í gangi.

„Úrslitakeppnin er nýtt mót og það telur ekkert að hafa unnið flesta leikina í deildarkeppninni. Þetta er bara stríð. Bæði lið reyna sitt besta og spila af krafti. Það er ekkert gefið og menn eru að láta andstæðinginn finna vel fyrir sér. Það er harka og það eru brot. Sem betur fer náðum við að landa sigrinum í þetta skipti. Þetta var afar tvísýnt.“

Nú er stutt í næsta leik. Fimmtudagur og ferð til Reykjavíkur. Er þetta ekki erfitt?

„Vissulega. Nú snýst allt um næringu og endurheimt. Það þurfa allir að hugsa vel um sig. Ég kynntist þessu í úrslitakeppninni í fyrra og þá sögðu fæturnir stundum stopp. Þá þurfti að grafa dýpra og finna leið til að hreyfa þá áfram“ sagði Jordan léttur.

https://www.mbl.is/sport/ishokki/2019/03/12/tta_eru_hnakkjofn_lid/

mbl.is