SA einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Andri Már Mikaelsson fagnar marki sínu í kvöld.
Andri Már Mikaelsson fagnar marki sínu í kvöld. mbl.is/Eggert

SA er einum sigri frá því að verja Íslandsmeistaratitil sinn í íshokkí karla eftir 3:2-sigur á SR í Skautahöll Reykjavíkur í kvöld. SA er nú með 2:0-forystu í einvíginu. 

Gestirnir í SA voru í góðum málum eftir fyrsta leikhluta og með 2:0-forystu. Heimamenn byrjuðu af krafti og sköpuðu sér nokkur ágæt færi á fyrstu mínútunum en Adam Beukeboom í marki SA var sterkur og varði nokkrum sinnum vel.

Það kom því nokkuð gegn gangi leiksins þegar Andri Már Mikaelsson kom SA yfir á 10. mínútu er hann skaut upp í vinkilinn eftir sendingu frá Jóni Gíslasyni. Sjö mínútum síðar bætti Orri Blöndal við öðru marki, eftir mistök hjá Arnari Hjaltested í marki SR. Hann missti pökkinn beint til Orra, eftir skot frá Jussi Sipponen.

SA skoraði markið manni fleiri, en það gekk illa hjá SR að nýta sér liðsmuninn í nokkur skipti sem SA-menn fengu brottvísanir í leikhlutanum. SA refsaði hins vegar um leið og SR-ingar fengu sína fyrstu brottvísun og þar lá munurinn í fyrsta leikhlutanum.

Heimamenn gáfust ekki upp og tókst þeim að minnka muninn í öðrum leikhluta. Bjarki Jóhannesson skoraði þá á 35. mínútu og voru SR-ingar nálægt því að jafna metin á lokakafla leikhlutans. Þrátt fyrir mikla pressu við mark SA, var staðan hins vegar 2:1 fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.

SA náðu aftur tveggja marka forystu snemma í þriðja leikhluta er Kanadamaðurinn Jordan Steger skoraði af stuttu færi. Það tók SR hins vegar aðeins um eina mínútu að minnka muninn aftur í eitt mark, en Robbie Sigurðsson skoraði á 46. mínútu og var munurinn því eitt mark þegar kortér var eftir. 

SR-menn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en þrátt fyrir fín færi tókst það ekki og gestirnir fóru glaðir heim til Akureyrar. 

SR 2:3 SA opna loka
60. mín. SR Textalýsing 35 sekúndur eftir og það er vesen með gler á hliðarlínunni. Leikurinn stöðvaður. SR-menn þurfa eitthvað kraftaverk núna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert