Við vorum bara heppnari í dag

Jóhann Már Leifsson fagnar.
Jóhann Már Leifsson fagnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Við vorum bara heppnari í dag fannst mér. Þetta var mjög jafn leikur og bæði lið voru að sækja,“ sagði Jóhann Már Leifsson, leikmaður SA, í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur á SR í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkíi. 

Jóhann var ekki sérstaklega ánægður með spilamennsku SA, þrátt fyrir sigurinn. 

„Það var mikið af brotum og við náðum að nýta liðsmuninn vel. Spilamennskan hefur oft verið betri. Þetta var mikið klafs og sendingarnar voru ekki góðar. Við vorum orðnir þreyttir í endann. Þeir pressuðu okkur mjög mikið.“

SA nægir sigur í þriðja leik liðanna á heimavelli á laugardaginn kemur til að verja Íslandsmeistaratitilinn. „Við erum komnir í góða stöðu, 2:0. Við reynum að klára þetta heima á laugardaginn. Þeir hafa hins vegar engu að tapa og koma á fullu. Við þurfum að vera 100 prósent tilbúnir í það.“

Í fyrsta leikhluta lá Miloslav Racansky, leikmaður SR, eftir meiddur og var varamannabekkur SR allt annað en sáttur í kjölfarið. Leikmenn SR sökuðu Andra Má Mikaelsson um ljótt brot. 

„Ég sá þetta ekki alveg, en hann talaði um að hann hafi fengið kylfuna í punginn á sér. Ég sá þetta ekki nógu vel,“ sagði Jóhann Már. 

mbl.is