Ratcliffe sagður ætla að styðja Team Sky

Bretinn James Ratcliffe að veiðum á Íslandi.
Bretinn James Ratcliffe að veiðum á Íslandi.

Breski kaupsýslumaðurinn Jim Ratcliffe, sem er Íslendingum hvað kunnastur vegna jarðakaupa sinna á Norðausturlandi, er sagður ætla að styðja við stórlið Sky í hjólreiðum á komandi árum með meira fjármagni en liðið hefur haft til umráða undanfarin ár. Team Sky hefur verið sigursælasta lið síðustu ára á stærstu mótum ársins.

Núverandi aðalstyrktaraðili liðsins, Sky, hafði tilkynnt að fyrirtækið myndi hætta að styðja við hjólaliðið eftir tímabilið sem nú er nýhafið. Samkvæmt hjólafréttasíðunni Cycling weekly mun fyrirtæki Ratcliffe, breska og svissneska efnavinnslufyrirtækið Ineos, er sagt munu styðja hjólaliðið, en formlega á að tilkynna um samninginn fyrir Giro d‘Italia keppnina sem hefst í maí, en það er fyrsta stóra fjöldaga keppni ársins (Tour of France og Vuelta a España eru hinar).

Liðsmenn Team Sky við kynningu áður en Tour Colombia hófst …
Liðsmenn Team Sky við kynningu áður en Tour Colombia hófst nú í síðasta mánuði. AFP

Velta Team Sky er um 34 milljón pund á þessu ári og er er það umtalsvert meira en næstu liða þar fyrir neðan. Áform Ratcliff benda hins vega til þess að hann vilji setja enn meiri fjármuni í liðið.

Ratcliffe er sjálfur þríþrautamaður og hefur Ineos stutt við Ineos Team UK siglingaliðið undanfarið með um 110 milljónum á ári.

Team Sky framlengdi nýlega samning sinn við stærstu stjörnu liðsins Chris Froome til ársins 2020, en hann hefur sigrað Tour de France fjórum sinnum og Giro d‘Italia og Vuelta a Espana einu sinni hvora keppni. Þá var samningurinn við Geraint Thomas framlengdur til 2021, en hann sigraði Tour de France í fyrra og samningurinn við Egan Bernal, björtustu von liðsins, var framlengdur til 2023.

Team Sky við æfingar í Argentínu í Febrúar. Chris Froome …
Team Sky við æfingar í Argentínu í Febrúar. Chris Froome er annar frá vinstri. AFP

Ratcliffe hefur á undanförnum árum keypt fjölda jarða á Íslandi, en hann keypti Grímstaði á Fjöllum árið 2016. Þá hefur hann keypt jarðir við Hafralónsá í Þistilfirði og þrjár laxveiðijarðir í Vopnafirði. Til viðbótar á hann 86,67% hlut í veiðifélaginu Streng ehf. eftir að hafa keypt eignarhaldsfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni. Strengur er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu og á auk þess sex jarðir í Vopnafirði að hluta eða að öllu leyti. Einnig á félagið nýlegt veiðihótel við Selá. Fyrir um þremur árum var greint frá því í Morgunblaðinu að Jóhannes og Ratcliffe ættu samtals að hluta eða öllu leyti 23 af 70 jörðum í héraðinu.

Selá í Vopnafirði
Selá í Vopnafirði mbl.is/Golli

Ineos er metið á um 35 millj­arða punda og á Ratcliffe 60% hlut í félaginu, en hagnaður fyr­ir­tæk­is­ins á síðasta ári nam rúm­um 2,2 millj­örðum punda. Ratcliffe er stofnandi félagsins og forstjóri, en félagið er með 17 þúsund starfs­menn á 67 stöðum í 16 lönd­um og er með höfuðstöðvar í Sviss. Hann út­skrifaðist sem verk­fræðing­ur frá Bir­ming­ham-há­skóla.

Meðal þess sem Ineos fram­leiðir er leir­steinsgas sem er ein teg­und jarðgass, bygg­ing­ar­efni, plast og ým­is­legt úr jarðeldsneyti. 

Eign­ir Ratclif­fe eru metn­ar á 21 millj­arð punda en þær juk­ust um meira en 15 millj­arða punda á milli áranna 2017 og 2018 og er hann talinn ríkasti Bretinn samkvæmt Sunday Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert