„Spila með yndislegasta hópi stráka sem hugsast getur“

Adam Beukeboom, markmaður SA, var valinn besti leikmaður Hertz-deildarinnar í …
Adam Beukeboom, markmaður SA, var valinn besti leikmaður Hertz-deildarinnar í vetur. mbl.is/Eggert

Það var mikil hamingjustund hjá Adam Beukeboom, markverði SA í íshokkí, í dag. Hann varð Íslandsmeistari með liði sínu en var einnig valinn besti markvörður deildarinnar og mikilvægasti leikmaður Íslandsmótsins. Faðir hans og systir voru mætt frá Kanada til Akureyrar til að gleðjast með stráknum en þau hafa horft á alla leiki SA í vetur, þökk sé internetinu.

Sæll Adam. Þetta er þitt fyrsta tímabil með SA. Hvernig hefur verið hjá þér í vetur?

„Þetta er búið að vera mikið ævintýri og ég er að spila með yndislegasta hópi stráka sem hugsast getur. Tímabilið mun verða ógleymanlegt.“

Þú varst valinn bestur í deildinni. Er það ekki ánægjulegt?

„Í raun skiptir það mig engu miðað við að við vorum að vinna titilinn. Það er það eina sem skiptir mig máli. Liðið kemur alltaf númer eitt.“

Nú eru bara þrjú lið í deildinni og þið unnuð SR sjö sinnum í deildinni. Hefði ekki verið skellur að tapa úrslitaeinvíginu?

„Jú það hefði ekki mátt gerast. En íshokkíið er bara þannig. Það verður að vinna þegar allt er undir.“

Hvernig er svo staðan hjá þér, er eitthvað farið að spá í næsta tímabil?

„Nei það kemur bara í ljós hvað gerist. Það er allt opið en nú ætla ég að fara að heilsa upp á pabba og njóta stundarinnar“ sagði Adam að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert