Sigurformúla sem virkar á Akureyri

Akureyringar fagna sigrinum.
Akureyringar fagna sigrinum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lið SA-Víkinga varð um helgina Íslandsmeistari karla í íshokkíi í 21. skipti á 28 árum. Í úrslitaeinvíginu í ár mætti SA liði SR og lauk því einvígi á laugardag með þriðja sigri Akureyringa. SA-Víkingar höfðu unnið tvo fyrstu leiki einvígisins 3:2 en lokaleikurinn fór 4:1. Andri Már Mikaelsson fékk afhentan Íslandsbikarinn í leikslok við mikinn fögnuð fjölmargra áhorfenda.

Þrátt fyrir 4:1-sigur SA var leikurinn jafnari en tölur gefa til kynna. SA skoraði tvisvar á sömu mínútu undir lok fyrsta leikhlutans en SR svaraði um hæl. SA bætti við tveimur mörkum í öðrum leikhluta, báðum eftir magnaðan samleik og staðan var allt í einu orðin 4:1. SR-ingar létu mótlætið fara í skapið á sér og fengu nokkrar refsingar í kjölfarið. Heimamenn náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og var SR inni í leiknum lengi vel. Reykvíkingar brenndu m.a. af víti og áttu góða atlögu að marki SA á lokamínútunum. Allt kom fyrir ekki og SA fagnaði vel og innilega þegar titillinn var tryggður.

Akureyringar eru ólseigir og virðast alltaf geta galdrað fram góða sigurformúlu með kjarna eldri og reyndari manna í bland við ungviði og nokkra erlenda gæðaleikmenn. Finnski þjálfarinn Jussi Sipponen er búinn að vera á Akureyri í fjögur ár. Hann er orðinn 38 ára og spilar enn eins og unglamb. Samningur hans var að renna út og óvíst að hann verði áfram í bænum. Norðanmenn hafa borið gæfu til að hafa fengið sterka erlenda leikmenn til sín og í ár var Kanadamaðurinn Adam Beukeboom í markinu. Hann var valinn besti markvörður deildarinnar og jafnframt mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Bandaríkjamaðurinn Jordan Steger varð markahæstur í deildinni og þriðji stigahæstur. Fyrir er svo þéttur kjarni heimamanna sem sumir virðast hafa spilað með liðinu í áratugi.

Nánar er fjallað um sigur SA í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Íslandsmeistararnir.
Íslandsmeistararnir. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert