Viðeigandi endir á tímabilinu

Stigameistararnir í heimsbikarnum í alpagreinum í vetur: Marcel Hirscher og …
Stigameistararnir í heimsbikarnum í alpagreinum í vetur: Marcel Hirscher og Mikaela Shiffrin. AFP

Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum lauk keppnistímabilinu í heimsbikarnum í alpagreinum skíðaíþrótta með viðeigandi hætti þegar hún sigraði í stórsvigi í Andorra um helgina. Shiffrin varð stigameistari í þremur greinum í heimsbikarnum sem er met. 

Shiffrin sigraði í samanlagðri stigakeppni heimsbikarsins en einnig í samanlagðri stigakeppni í svigi, stórsvigi og risasvigi og það hefur enginn afrekað fyrr hvorki í karla- né kvennaflokki enda eru til dæmis svig og risasvig tæknilega ólíkar greinar. Lindsey Vonn frá Bandaríkjunum og Tina Maze frá Slóveníu hafa þó báðar náð fjórum titlum á einu tímabili en ekki í þeim greinum sem um ræðir hjá Shiffrin. 

Shiffrin hefur ekki áður náð því að verða stigameistari í risasvigi. Shiffrin sigraði á sautján mótum í vetur og hefur samtals unnið sextíu heimsbikarmót þótt hún sé einungis 24 ára gömul. 

Shiffrin sagðist í samtali við fjölmiðla vera ánægð með að hafa náð að ljúka viðburðaríku keppnistímabili á fullu blasti og henni hafi tekist að halda einbeitingu fram í síðustu keppni vetrarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert