Deildameistararnir í bikarúrslit

Deildameistararnir eru komnir í bikarúrslit þar sem HK bíður.
Deildameistararnir eru komnir í bikarúrslit þar sem HK bíður. Ljósmynd/Blaksamband Íslands

Deildameistarar KA mæta HK í úrslitum Kjörísbikars kvenna í blaki eftir 3:1-sigur á Þrótti Neskaupstað í Digranesi í dag. Staðan var 1:1 eftir tvær hrinur en KA var sterkari aðilinn í síðustu tveimur hrinum. 

KA fór vel af stað og vann fyrstu hrinuna 25:11, en Þróttur svaraði með 26:24-sigri í æsispennandi annarri hrinu. KA vann hins vegar tvær síðustu hrinurnar 25:17 og leikinn í leiðinni 3:1. HK hafði betur gegn Völsungi í hinum undanúrslitaleiknum í gær. 

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst hjá KA með 24 stig og Hulda Elma Eysteinsdóttir skoraði 15. Særún Birta Eiríksdóttir skoraði 14 stig fyrir Þrótt og Tinna Rut Þórarinsdóttir gerði 11 stig. 

Úrslitaleikurinn fer fram kl. 13:30 í Digranesi á morgun og má búast við æsispennandi leik, en KA og HK lentu í tveimur efstu sætum Mizuno-deildarinnar og skildi aðeins eitt stig liðin að. 

mbl.is