KA-menn bikarmeistarar annað árið í röð

Leikmenn KA fagna sínum öðrum bikarmeistaratitli á tveimur árum.
Leikmenn KA fagna sínum öðrum bikarmeistaratitli á tveimur árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

KA varð í dag bikarmeistari karla í blaki, annað árið í röð, þegar liðið vann Álftanes í úrslitaleik í Digranesi í þremur hrinum, 3:0. Þetta var níundi bikarmeistaratitill KA-manna, sem urðu einnig deildarmeistarar fyrr í vetur og hafa sem ríkjandi Íslandsmeistarar möguleika á þrennunni annað árið í röð.

Stemningin var þó með Álftanesi í upphafi leiks og liðið byrjaði töluvert betur í fyrstu hrinu. Álftanes komst meðal annars í 12:7, áður en KA svaraði með fimm stigum í röð og jafnaði. Norðanmenn náðu þó ekki að komast yfir í kjölfarið, en gerðu það loks í stöðunni 20:19. KA hélt út hrinuna, vann hana 25:22 og komst í 1:0.

Önnur hrina var jöfn og spennandi þar sem mest munaði þremur stigum á liðunum, en eins og í þeirri fyrstu var það Álftanes sem var skrefinu á undan. KA-menn þurftu á meðan að elta, jöfnuðu nokkrum sinnum en gekk illa að komast yfir. Þeir náðu því hins vegar á ögurstundu í stöðunni 23:22 og unnu hrinuna að lokum 25:23. Magnaður lokasprettur KA í hrinunni, en norðanmenn skoruðu fimm af síðustu sex stigum hennar. Staðan 2:0.

KA-menn voru þarna aðeins einni hrinu frá sigri. Ólíkt fyrstu tveimur hrinunum voru þeir með yfirhöndina í þeirri þriðju, en þótt Álftanes hafi lengst af þurft að elta voru KA-menn aldrei langt undan. Norðanmenn voru hins vegar komnir með blóð á tennurnar, kláruðu hrinuna af miklum krafti og unnu hana örugglega 25:17.

KA vann leikinn þar með 3:0 og fagnaði bikarmeistaratitlinum annað árið í röð.

Miguel Mateo var stigahæstur hjá KA með 25 stig og var útnefndur maður leiksins. Jordan Darlington skoraði 13 fyrir Álftanes og var stigahæstur.

Með bikarmeistaratitlinum tryggðu KA-menn tvöfaldan fögnuð félagsins, en kvennalið KA varð fyrr í dag bikarmeistari í fyrsta sinn eftir sigur á HK.

mbl.is