Arnar efstur á evrópska stigalistanum

Arnar Davíð Jónsson.
Arnar Davíð Jónsson. Ljósmynd/KLÍ

Í gær lauk stærsta mótinu í evrópsku mótaröðinni í keilu á þessu keppnistímabili, Brunswick Euro Challenge. Arnar Davíð Jónsson náði þar 5. sæti og um leið tyllti hann sér í efsta sæti á mótaröðinni í ár.

Arnar, sem keppir með sænska liðinu Höganäs, og Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR komust báðir upp úr forkeppninni og í Brunswick Euro Challenge sem fram fór í Þýskalandi.

Alls tóku 10 íslenskir keilarar þátt í mótinu en um 400 keppendur víðs vegar að úr heiminum tóku þátt í því. Eftir 5 leiki af 6 í „Final step 1“ voru þeir báðir meðal 16 efstu af 52 keppendum en Gunnar lenti í vandræðum í síðasta leik og komst ekki áfram og endaði hann í 40. sæti.

Arnar fór hins vegar áfram og hélt áfram að spila vel í „Final step 2“. Hann var var einn af þeim átta sem komust áfram í „Final step 3“ en 20 aðrir sátu þar eftir. Arnar gerði sitt besta og var um tíma í hópi þriggja efstu en þurfti á endanum að sætta sig við 5. sæti í þessu stærsta móti sem fram fer í Evróputúrnum ár hvert.

Eftir mótið er Arnar Davíð efstur á evrópska stigalistanum sem gefur sæti í Master-keppninni ár hvert og er þetta í fyrsta sinn sem íslenskur keilari nær þessum áfanga.

Alls eru 5 mót búin af 14 og hefur Arnar náð stigum á fjórum þeirra. Þar af varð hann í 3. sæti á móti í Tilburg í Hollandi um daginn. Arnar er að fylgja eftir frábærum endi á síðasta keppnistímabili en þá varð hann m.a. fyrsti íslenski keilarinn til að vinna mót í evrópsku mótaröðinni þegar hann vann Óðinsvé International í Danmörku og stuttu síðar varð hann í 3. sæti á opna norska mótinu. Næsta mót í mótaröðinni verður um mánaðamótin júní - júlí í Madríd á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert