Sigurður heim með fjögur gull frá HM

Sigurður Haraldsson á verðlaunapalli í Torun. Frank Gries frá Þýskalandi, …
Sigurður Haraldsson á verðlaunapalli í Torun. Frank Gries frá Þýskalandi, til hægri, fékk silfurverðlaunin í morgun. Til vinstri er Viljö Hyvölä frá Finnlandi en þessir þrír börðust um verðlaunasætin í flestum greinunum á HM. Ljósmynd/Birna Sigurðardóttir

Sigurður Haraldsson úr Leikni á Fáskrúðsfirði sigraði í morgun í kringlukasti í flokki 90-94 ára á heimsmeistaramóti öldunga í frjálsíþróttum í Póllandi og hann kemur þar með heim sem fjórfaldur heimsmeistari.

Sigurður vann öruggan sigur í kringlukastinu en hann kastaði 20,20 metra. Þjóðverjinn Franz Fries varð annar með 19,37 metra en bronsið hlaut Lauri Helle frá Finnlandi sem kastaði 14,86 metra.

Í gær sigraði Sigurður í sleggjukasti þar sem hann kastaði 19,64 metra, 38 sentimetrum lengra en Viljö Hyvölä frá Finnlandi sem fékk silfrið. Sigurður hafði áður sigrað í spjótkasti og lóðkasti en hætti við þátttöku í fimmtu greininni, kúluvarpi.

Kristján Gissurarson missti naumlega af verðlaunasæti í stangarstökki í flokki 65-69 ára á mótinu í gær. Kristján stökk 3,20 metra, jafnlangt og þeir sem fengu silfrið og bronsið, en var með fleiri tilraunir og hafnaði þar með í fjórða sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert