Þóttust fá Íslending í eina vinsælustu deild heims

Kit Harris í hlutverki Katós Jónssonar sem átti að verða …
Kit Harris í hlutverki Katós Jónssonar sem átti að verða fyrsti Íslendingurinn í indversku úrvalsdeildinni.

Krikketspilarinn Kató Jónsson er ekki sérlega þekktur á Íslandi, enda er hann ekki til, en lið Kings XI Punjab þóttist vera að fá hann í sínar raðir á mánudaginn. Um var að ræða aprílgabb sem náði til tugmilljóna manns.

Það var í raun Bretinn Kit Harris, stjórnarmaður í Krikketsambandi Íslands, sem brá sér í gervi Katós. Hann samdi handritið að aprílgabbinu með Satish Menon, framkvæmdastjóra Kings XI Punjab, en félagið birti frétt um komu Katós á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum sem ná til milljóna aðdáenda.

Indverskir fjölmiðlar tóku vitaskuld eftir gabbinu og á vef The Hindu og New Indian Express birtust fréttir um óvænta komu Katós, sem lýst var sem kastara með einstaka kasttækni sem kölluð væri „fíflið“. Lesendum var þó jafnframt bent á hvaða dagur væri.

Myndskeið af Harris á leikvangi Kings XI Punjab birtist svo á Facebook-síðu liðsins en í lok þess reyndi Bretinn sitt besta til að tala íslensku: „Krikket er draumur Indverja, en ekki Íslendinga. Ég spila ekki krikket og hef aldrei spilað krikket. Þetta er stór misskilningur. Hjálpaðu mér. Hjálpaðu mér!“ sagði Harris án þess að þær tæpu 9 milljónir sem fylgja liðinu hefðu hugmynd um hvað hann væri að segja.

Hundruð milljóna fylgjast með indversku úrvalsdeildinni í krikketi og er meðaláhorfendafjöldi á leiki í deildinni einn sá mesti sem þekkist í heiminum, í hvaða íþrótt sem er.

Krikket á sér ekki langa sögu á Íslandi en hefur þó verið að ryðja sér til rúms. Í fyrra tókst með netsöfnun að safna 1,5 milljónum króna fyrir íslenska landsliðið sem ferðaðist til Lundúna í september og vann lið Sviss, 330:115. Til stendur að opna fyrsta krikketvöllinn hér á landi í Hafnarfirði í lok maí, að sögn Harris, en það yrði þar með nyrsti krikketvöllur heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert