Skíðamót Íslands hefst í kvöld

Elsa Guðrún Jónsdóttir og Snorri Einarsson voru sigursæl á Skíðamóti …
Elsa Guðrún Jónsdóttir og Snorri Einarsson voru sigursæl á Skíðamóti Íslands í Bláfjöllum í fyrra.

Skíðamót Íslands fer fram á tveimur stöðum í ár, á Ísafirði og Dalvík, en það hefst í kvöld og stendur yfir fram á sunnudag.

Skíðafélag Ísfirðinga fékk mótinu úthlutað en vegna snjóleysis í brekkunum á Ísafirði fer alpagreinahluti mótsins allur fram á Dalvík. Hins vegar verður keppt í skíðagöngu á Ísafirði og þar hefst einmitt mótið í kvöld þegar keppt verður í sprettgöngu. Úrslit í sprettgöngu hefjast kl. 18.

Elsa Guðrún Jónsdóttir var að vanda sigursæl í fyrra en hún varð Íslandsmeistari í sprettgöngu, 5 km göngu með hefðbundinni aðferð, og 10 km göngu með frjálsri aðferð. Isak Pedersen varð Íslandsmeistari karla í sprettgöngu en HM-hetjan Snorri Einarsson vann 10 km göngu með hefðbundinni aðferð og 15 km göngu með frjálsri aðferð.

Á Dalvík verður keppt í stórsvigi á laugardag og svigi á sunnudag. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Gísli Rafn Guðmundsson urðu Íslandsmeistarar í stórsvigi í fyrra en Freydís Halla Einarsdóttir og Magnús Finnsson Íslandsmeistarar í svigi.

Dagskrá mótsins má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert