BH braut blað í borðtennissögunni

Badmintonfélag Hafnarfjarðar braut í gær blað í sögu deildakeppninnar í borðtennis með því að verða Íslandsmeistari félagsliða í karlaflokki en KR og Víkingur höfðu einokað þennan titil í fjóra áratugi. 

Úrslitaleikir Raflandsdeildanna í karlaflokki og kvennaflokki fóru þá fram í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.

BH sigraði Víking 3:1 í úrslitaleik karla sem var gríðarlega spennandi en allar einliðaleiksviðureignirnar í leiknum fóru í oddalotu.

Sigurlið BH var skipað Magnúsi Gauta Úlfarssyni, Birgi Ívarssyni og bræðrunum Pétri Marteini og Jóhannesi Bjarka Urbancic Tómassonum. Þjálfari þeirra er Tómas Shelton.

Í úrslitaleik kvenna  vann Víkingur sigur á B-liði KR, 3:0, en það síðarnefnda komst óvænt í úrslitin með því að sigra A-lið KR. Var eftirtektarvert hversu ung liðin voru í úrslitunum en í sigurliði Víkinga var m.a. Agnes Brynjarsdóttir 12 ára sem hampaði Íslandsmeistarartitli í meistaraflokki fyrr í vetur.

Sigurlið Víkinga kvennamegin var skipað þeim Nevenu Tasic, Agnesi Brynjarsdóttur, Þórunni Ástu Árnadóttur og Stellu Karen Kristjánsdóttur. Þjálfari þeirra er Ársæll Aðalsteinsson.

Allir þeir einstaklingar sem unnu með liðum sínum í dag unnu titilinn í fyrsta sinn, bæði í karla og kvennaflokki.

Á myndskeiðinu má sjá sigurstundina hjá karlaliði BH í úrslitaleiknum.

Sigurlið Víkings og BH.
Sigurlið Víkings og BH. Ljósmynd/bordtennis.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert