„Mikill léttir að þessi titill er kominn í hús“

KA-menn fagna í kvöld.
KA-menn fagna í kvöld. mbl.is/Þórir Tryggvason

Mason Casner, fyrirliði KA í blaki, fékk að lyfta Íslandsbikarnum í kvöld eftir spennuþrunginn oddaleik KA og HK. KA vann leikinn 3:2 eftir mikinn barning og frábært blak beggja liða.

„Mér líður mjög vel núna og það er mikill léttir að þessi titill er kominn í hús. Liðið er búið að æfa mjög stíft í allan vetur og síðustu daga höfum við spilað hvern leikinn á fætur öðrum. Menn eru orðnir þreyttir en gerðu það sem þurfti og það var gaman hér í kvöld. Húsið fullt af áhorfendum og mikill stuðningur við okkur. Ég er bara hrærður og hef ekki séð svona margt fólk á blakleik hjá okkur. Það var mögnuð tilfinning að sjá allt þetta fólk og það studdi okkur alla leið. Ég er afar stoltur af mínum leikmönnum og liðinu og bara spenntur að stíga næsta skref. Nú er KA handhafi allra titlanna í karla- og kvennaflokki og það er risastórt fyrir þetta félag.“

Þetta einvígi er búið að taka verulega á. Þið töpuðuð leikjum tvö og þrjú og lentuð undir 2:1 í leikjum. Svo voruð þið líka undir í fjórða leiknum en náðuð að kreista fram þennan oddaleik.

„Við lentum í veseni. Filip uppspilari fór í leikbann og við vorum án hans í þriðja leiknum. Þetta var bara spurning um að duga eða drepast. Við héldum bara áfram og börðumst fyrir þessum sigrum. Það var ekkert annað í boði.“

Verður þú áfram með KA næsta tímabil?

„Já, ég verð hér áfram og vil leggja mitt af mörkum til að halda liðinu á toppnum. Mér líkar lífið hér á Íslandi og hef enga ástæðu til að fara eitthvað annað.“

Þarf KA ekki að fá sér nýjan uppspilara þar sem Filip er kominn yfir fertugt?

„Nei ekkert svoleiðis. Hann er eins og góð vín, verður bara betri með aldrinum,“ sagði hinn háttprúði Bandaríkjamaður að lokum.

Frá síðasta leik liðanna á Akureyri í kvöld.
Frá síðasta leik liðanna á Akureyri í kvöld. mbl.is/Þórir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert