Leikurinn sem við ætluðum að vera bestir í

„Gull hefði verið betra, en við fáum alla vega silfur sem er betra en 4. sæti og það var það sem við kepptum um í dag,“ sagði Snorri Sigurbergsson, landsliðsmarkvörður í íshokkí, sem valinn var maður leiksins í síðasta leik Íslands á HM í Mexíkó í gærkvöld.

Ísland vann Nýja-Sjáland 4:2 í lokaleiknum og vann því til silfurverðlauna á mótinu.

„Við gáfum allt í þennan leik. Þetta var leikurinn sem við ætluðum að vera bestir í og við gerðum það alveg klárlega. Þetta var erfiðasti mótherjinn. Það var leiðinlegt að byrja mótið á tapi og að þar með væri gullið nánast farið í burtu. Þetta var sett upp sem úrslitaleikurinn. En við fáum silfrið og tökum því alla vega,“ sagði Snorri.

Nánar er rætt við Snorra í meðfylgjandi myndskeiði en hann hefur verið búsettur í Svíþjóð síðustu ár þar sem hann er að klára nám í íþróttafræðum. Lokaverkefni hans fjallaði um framtíðarsýn í landsliðsþjálfun í íshokkí á Íslandi, en Snorri reiknar með að búa áfram í Svíþjóð og vonast til þess að fá þar þjálfarastöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert