„Á vonandi einhverja leiki eftir“

„Það voru ákveðin vonbrigði að tapa á móti Ísrael í fyrsta leik en við mættum sterkari til leiks í næstu tveimur leikjum,“ sagði Ingvar Þór Jónsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í íshokkí eftir að íslenska liðið hafði tryggt sér silfur í B-riðli 2. deildar á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Mexíkó.

Ingvar lék sinn hundraðasta landsleik í Mexíkó en liðið lagði landslið Nýja-Sjálands 4:2 í lokaumferð mótsins og tryggði sér þar með annað sæti riðilsins en Ingvar hefur leikið alla landsleiki Íslands frá upphafi, þann fyrsta árið 1999.

„Við gerðum okkur ákveðnar vonir um að vera í toppbaráttu á þessu móti og markmiðið var að vinna mótið en það var alls ekki sjálfgefið. Það voru sterk lið að taka þátt í ár og það sést á úrslitunum þar sem að öll liðin gátu í raun tekið stig af hvort öðru. Það eru kannski smá vonbrigði að fara ekki beint upp í A-riðilinn en við endum þetta á góðum nótum sem er jákvætt.“

Ingvar spilaði sinn 100. landsleik í Mexíkó en fyrirliðinn er ekki farinn að huga að því að leggja skautana á hilluna.

„Ég mun setjast niður og skoða mín mál núna á næstu vikum. Það þarf að taka fjölskyldu- og vinnuaðstæður með í reikninginn þegar maður tekur svona ákvörðun. Ég kom inn í þetta mót með það hugarfar að þetta væri ekki mitt síðasta mót og ég á von á því að spila einhverja leiki í viðbót fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Ingvar Þór.

Á lokaathöfn mótsins var Dennis Hedström, markvörður íslenska liðsins, valinn besti markmaður mótsins. Dennis, sem er sænskættaður Íslendingur, spilar með Göteborgs IK í 3ju deild í Svíþjóð. Hann hefur spilað með íslenska landsliðinu síðan 2008. Robin, bróðir Dennis, hefur einnig verið atkvæðamikill leikmaður í íslenska liðinu en hefur ekki spilað með því síðan á HM 2017.

Dennis Hedström, markmaður íslenska liðsins, var valinn besti markmaður mótsins.
Dennis Hedström, markmaður íslenska liðsins, var valinn besti markmaður mótsins. Ljósmynd/Bjarni Helgason



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert