Ingvar og Björk með sigur á fyrsta móti ársins

F.v. Óskar Ómarsson, Ingvar Ómarsson og Eyjólfur Guðgeirsson voru fyrstu …
F.v. Óskar Ómarsson, Ingvar Ómarsson og Eyjólfur Guðgeirsson voru fyrstu menn í meistaraflokki karla. mbl.is/Þorsteinn

Götuhjólatímabilið er formlega hafið hér á landi, en í dag fór fram fyrsta slíka keppni ársins þegar hið árlega Reykjanesmót var haldið. Er mótið jafnframt fyrsta bikarmót ársins í götuhjólaflokki.

Keppt var í meistaraflokki (elite-flokki) sem telur til bikarstiga, auk þess sem keppt var í fyrsta skipti í svokölluðum mastersflokki, en þar er um að ræða aldursskipta flokka sem munu telja til sérstakra bikarstiga. Vegalengd þessara flokka var 106 kílómetrar, en einnig var keppt í 63 og 32 kílómetra almenningsflokkum.

Það voru þau Ingvar Ómarsson og Björk Kristjánsdóttir sem stóðu uppi sem sigurvegarar í meistaraflokknum, en Ingvar er núverandi Íslandsmeistari í bæði götuhjólreiðum og fjallahjólreiðum.

F.v. Ágústa Edda Björnsdóttir, Björk Kristjánsdóttir og Karen Axelsdóttir, fyrstu …
F.v. Ágústa Edda Björnsdóttir, Björk Kristjánsdóttir og Karen Axelsdóttir, fyrstu konurnar. mbl.is/Þorsteinn

Í meistaraflokki kvenna var Ágústa Edda Björnsdóttir, núverandi Íslandsmeistari í götuhjólreiðum og tímaþraut, í öðru sæti og Karen Axelsdóttir í þriðja. Í meistaraflokki karla var Óskar Ómarsson í öðru sæti og Eyjólfur Guðgeirsson í þriðja sæti.

Í 106 km vegalengdinni var farið frá Sandgerði, fram hjá …
Í 106 km vegalengdinni var farið frá Sandgerði, fram hjá Reykjanesvirkjun, í gegnum Grindavík og upp Festarfjall þar sem snúið var við og farið til baka. Hér snúa keppendur við á Festarfjalli.

Í samanlögðum mastersflokki karla var Orri Einarsson fyrstur, Guðgeir Sturluson var annar og Guðmundur B. Friðriksson í þriðja sæti, báðir sekúndu á eftir Orra. Í mastersflokki kvenna var Kristrún Lilja Daðadóttir í fyrsta sæti, sex sekúndum á undan Elsu Maríu Davíðsdóttur og átta sekúndum á undan Brynju Birgisdóttur.

Keppendur fengu frábært hjólaveður, en bæði var sólskin og aðeins léttur vindur suður með sjó í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert