Mætti ekki í lyfjapróf og er hætt keppni

Ruta Meilutyte.
Ruta Meilutyte. AFP

Litháíska sundkonan Ruta Meilutyte tilkynnti í morgun að hún sé hætt keppni aðeins 22 ára gömul.

Meilutyte mætti ekki í þrjú lyfjapróf sem hún var boðuð í og fyrr í þessum mánuði sagði litháíska sundsambandið að hún ætti yfir höfði sér tveggja ára keppnisbann fyrir að skrópa í lyfjaprófunum og myndi þar með missa af Ólympíuleikunum í Tokyo á næsta ári.

Meilutyte, sem hefur aldrei fallið á lyfjaprófi, var stjarna Ólympíuleikanna í London árið 2012 þar sem hún 15 ára gömul vann gullverðlaunin í 50 metra bringusundi. Hún vann einnig gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í Barcelona ári síðar.

„Ég er tilbúin að hefja nýjan kafla í mínu lífi. Takk fyrir allan stuðninginn á vegferð minni,“ sagði Meilutyte í yfirlýsingu sem hún birti í morgun en hún segist vilja að snúa aftur í nám, upplifa einfalda hluti og skilja betur sjálfa sig og heiminn. Á síðasta ári greindi hún frá því að hún þjáðist af þunglyndi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert