Íslenskur sundknattleikur að lifna við

Íslandsmeistarar Ármanns fagna 13:8 sigri sínum gegn Sundfélagi Hafnarfjarðar, en …
Íslandsmeistarar Ármanns fagna 13:8 sigri sínum gegn Sundfélagi Hafnarfjarðar, en leikurinn var liður í alþjóðlegu móti og á sama tíma leikur um Íslandsmeistaratitilinn 2019. mbl.is/Eggert

Ármenningar eru Íslandsmeistarar í sundknattleik 2019, en þeir lögðu keppinauta sína úr Sundfélagi Hafnarfjarðar (SH) með 13 mörkum gegn 8 í Laugardalslauginni fyrir hádegi. Leikurinn var liður í alþjóðlegu tíu liða móti sem fram fer í Laugardalnum um helgina, en mótið er stærsta sundknattleiksmót sem haldið hefur verið á Íslandi.

Yfir 140 leikmenn taka þátt í mótinu, en allt skipulag mótsins er í höndum Glenn Moyle, þjálfara Ármanns. Hann er frá Nýja-Sjálandi en búsettur hér á landi og hefur unnið mikið grasrótarstarf við að kynna og breiða út sundknattleik á Íslandi undanfarin ár.

Átta erlend lið í heimsókn

Í samtali við mbl.is segir hann mótið hafa gengið mjög vel fram að þessu. Erlendu liðin átta koma frá Bandaríkjunum, Króatíu, Svíþjóð og Þýskalandi og segir Moyle að íslensku liðin standist vel samanburð við þau erlendu.

Ármenningar hafa spilað þrjá leiki og unnið þá alla og gátu tryggt sig í úrslitaleikinn með einum sigri til viðbótar, en Hafnfirðingar munu líklega enda í fimmta eða sjötta sæti mótsins miðað við árangur þeirra hingað til. Úrslitaleikurinn mun fara fram í Laugardalslauginni kl. 19 í kvöld, samkvæmt auglýstri dagskrá.

Leikmaður Ármanns með knöttinn í hendi en leikmaður SH með …
Leikmaður Ármanns með knöttinn í hendi en leikmaður SH með bláa hettu reynir að loka sendingaleiðinni. mbl.is/Eggert

„Þetta er búið að ganga mjög vel í ár, þetta verður í fyrsta sinn sem íslenskt lið verður í topp fjórum í mótinu,“ segir Moyle, en þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið og það hefur farið sístækkandi.

Buðu sundknattleiksmönnum í Þórsmörk

„Við erum að reyna að koma sundknattleiknum á sama stall og hann var hérna á sjöunda áratugnum, þá voru 4 lið á Íslandi, en nú eru þau bara tvö,“ segir Moyle, sem segir íþróttina í vexti hérlendis og að hann sé einnig mjög ánægður með þann áhuga sem erlend lið hafa sýnt á því að koma til landsins að spila sundknattleik.

Í gær fóru skipuleggjendur mótsins með alla leikmenn erlendu liðanna í hópferð í Þórsmörk og buðu þeim upp á kjötsúpu.

„Þannig að þeir fengu alvöru íslenska upplifun,“ segir Moyle og bætir við að útlit sé fyrir að sundknattleiksmótið verði enn stærra á næsta ári þar sem fleiri erlend lið en taka nú þátt hafi þegar lýst yfir áhuga á að koma.

Draumur hans er að þetta mót muni halda áfram að vaxa og verða að endingu það stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Það er þó erfitt að fjármagna viðburð sem þennan og halda utan um hann og vill Moyle nota tækifærið hér á síðum mbl.is til þess að þakka bæði Sundsambandi Íslands og öllum þeim sem hafa lagt á sig vinnu við mótið fyrir hjálpina.

mbl.is