Andrea bætti við EM-grein með methlaupi

Andrea Kolbeinsdóttir á ferðinni á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi fyrir mánuði …
Andrea Kolbeinsdóttir á ferðinni á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi fyrir mánuði síðan. Ljósmynd/FRÍ

Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR hljóp talsvert undir lágmarkstíma fyrir EM U23 í frjálsum íþróttum þegar hún vann 10.000 metra hlaup á Vormóti ÍR á Laugardalsvelli í gærkvöld.

Andrea hljóp á 35:25,38 mínútum en lágmarkið fyrir EM er 36:15,00 mínútur. Andrea setti nýtt aldursflokkamet í flokki 20-22 ára og aðeins Martha Ernstsdóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir hafa hlaupið vegalengdina hraðar af íslenskum konum.

Andrea hafði áður tryggt sér sæti á Evrópumóti U23 ára í 3.000 metra hindrunarhlaupi.

Eins og áður hefur komið fram féllu fleiri met í Laugardalnum í gær því Valdimar Hjalti Erlendsson úr FH setti nýtt aldursflokkamet í flokki 18-19 ára í kringlukasti með 57,54 metra kasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert