Sakaður um kynferðislega áreitni

Amr Warda leikur ekki fleiri leiki á Afríkumótinu í knattspyrnu ...
Amr Warda leikur ekki fleiri leiki á Afríkumótinu í knattspyrnu í ár. AFP

Egypski knattspyrnumaðurinn Amr Warda hefur verið rekinn úr landsliðshópi Egypta sem tekur þátt í Afríkumótinu í heimalandinu. Ástæðan er að fjöldi kvenna sakar Warda um kynferðislega áreitni.

Greint var frá því að Warda muni ekki leika fleiri leiki á mótinu í morgun en Egyptaland mætir Kongó í kvöld. Fram kom í yfirlýsingu knattspyrnusambands Egyptalands að ákvörðunin hafi verið tekin vegna þess að halda þurfi aga og menn þurfi að einbeita sér að verkefninu.

Fjöldi kvenna greindi frá því á samfélagsmiðlum fyrr í vikunni að Warda hefði sýnt af sér ósæmilega hegðun. Þær tóku skjáskot þar sem sjá mátti óviðeigandi ummæli knattspyrnumannsins.

Warda var vikið úr landsliðshópnum nokkrum klukkustundum eftir að myndskeið birtist á Twitter þar sem knattspyrnumaðurinn sýnir konu getnaðarlim sinn í myndbandsspjalli. AFP getur ekki staðfest áreiðanleika myndskeiðsins.

Warda var rekinn frá portúgalska liðinu Feriense eftir einungis þrjá daga fyrir tveimur árum. Hann var þá sakaður um að hafa áreitt tvær eiginkonur liðsfélaga sinna.

mbl.is