Óvæntur sigurvegari eftir árekstur

Mike Teunissen kom óvænt fyrstur í mark.
Mike Teunissen kom óvænt fyrstur í mark. AFP

Geraint Thomas, ríkjandi meistari í Frakklandshjólreiðunum, Tour de France, lenti í hremmingum á fyrsta degi keppninnar í dag. Hann lenti í árekstri þegar 1,6 kílómetrar voru eftir af 194,5 kílómetra leiðinni. 

„Ég hef það fínt. Það var lítið eftir og því miður var of þröngt. Þetta getur gerst. Ég er ánægður að fyrsta leiðin sé búin. Ein búin, tuttugu eftir,“ sagði Thomas í samtali við BBC. 

Hollendingurinn Michael Teunissen kom óvænt fyrstur í mark í dag. Hans hlutverk til þessa hefur aðallega verið að aðstoða Dylan Groenewegen. Þar sem Groenewegen lenti einnig í árekstri, tók Teunissen sig til og barðist um sigur til loka. 

Hann tók fram úr Peter Sagan í blálokin, en aðeins örfáir sentimetrar skildu að efstu tvo keppendurna. Caleb Ewan hafnaði svo í þriðja sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert