Mót hinnar mögnuðu Megan

Megan Rapinoe.
Megan Rapinoe. AFP

Bandaríska knattspyrnukonan Megan Rapinoe hefur verið á allra vörum á nýliðnu heimsmeistaramóti kvenna í knattspyrnu. Hún var í bandarísku liði heimsmeistaranna annað mótið í röð, skoraði fyrsta markið í úrslitaleiknum, var markahæsti leikmaður mótsins og var valin sú besta. Það verður því ekki annað sagt en að þetta hafi verið mótið hennar Megan. 

Fyrir utan leikvöllinn ögraði hún valdamesta leiðtoga heims, hellti sér yfir Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA fyrir að sýna konum í íþróttinni minni virðingu en karlmönnum og vakti athygli á réttindum hinsegin samfélagsins. 

Þá eru Rapinoe og liðsfélagar hennar að lögsækja bandaríska knattspyrnusambandið vegna launamisréttis. 

„Megan er gerð fyrir svona stundir,“ sagði þjálfari bandaríska liðsins, Jill Ellis, eftir sigur Bandaríkjanna á Hollandi í gær. „Því meira sviðsljós, þeim mun skærar skín hún.

„Sumir brenna sig á sviðsljósinu, en fyrir Megan, varpar það ljósi á hver hún er,“ sagði Ellis. 

Rapinoe, 34 ára gömul, er hvorki nýtt andlit né nafn á sviði kvennaknattspyrnu. Hún hefur leikið fyrir 7 félagslið í 3 heimsálfum. Með bandaríska landsliðinu hefur hún unnið Ólympíuleikana og nú heimsmeistaramótið tvisvar sinnum. 

Í umfjöllun BBC kemur fram að Rapinoe hafi alltaf verið skemmtikraftur að eðlisfari og kunnað að vekja athygli á sér. Á heimsmeistaramótinu 2011 þegar Bandaríkin töpuðu í úrslitaleik gegn Japan, fagnaði Rapinoe til að mynda marki sínu gegn Kólumbíu með því að grípa í hljóðnema á leikvanginum og syngja lag Bruce Springsteen "Born in the USA".

Nú þegar kvennaknattspyrnu virðist vera að vaxa ásmegin hefur Rapinoe verið hvað mest í sviðsljósinu. 

Hún sagðist til að mynda ekki ætla að fara í „fjandans Hvíta húsið“, yrði henni boðið þangað, nokkuð sem Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist ekki ánægður með. Sagði hann Rapinoe að „vinna fyrst, áður en hún talar,“ áður en forsetinn ákvað svo að bjóða liðinu í heimsókn hvort sem þær myndu sigra eða tapa. 

Rapinoe tók einnig þá ákvörðun að syngja ekki með þegar þjóðsöngur Bandaríkjanna var spilaður fyrir leiki á heimsmeistaramótinu, og sýna þannig stuðning með fyrrverandi NFL-leikmanninum Colin Kaepernick, sem vakti heimsathygli þegar hann kraup á meðan þjóðsöngurinn var spilaður til að mótmæla ofbeldi lögregluyfirvalda í Bandaríkjunum gegn hörundsdökkum Bandaríkjamönnum. 

Í umfjöllun TIME um bandaríska landsliðið segir meðal annars að sigur liðsins á heimsmeistaramótinu væri besta mögulega andsvar við gagnrýnisröddum í gegnum mótið. Væntingarnar hefðu getað orðið hvaða liði sem er að falli, en ekki Bandaríkjunum. Þær hafi í raun komið með ný viðmið inn í kvennaknattspyrnu og skapað nýjan mælikvarða á gæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert