Fleiri horfðu á konurnar en karlana

Bandaríska liðið fagnar heimsmeistaratitlinum.
Bandaríska liðið fagnar heimsmeistaratitlinum. AFP

Fleiri Bandaríkjamenn horfðu á úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í knattspyrnu á sunnudag en horfðu á úrslitaleik heimsmeistaramóts karla á síðasta ári. 

Í frétt Business insider kemur fram að um 14,3 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á bandaríska liðið sigra Holland 2-0 og landa heimsmeistaratitlinum annað mótið í röð og fjórða titlinum frá fyrsta heimsmeistaramóti kvenna árið 1991. 

Talsvert færri áhorfendur horfðu á úrslitaleik Frakklands og Króatíu á heimsmeistaramóti karla fyrir um ári, eða um 11,4 milljónir Bandaríkjamanna sem er um 22% færri áhorfendur en horfðu á leikinn á sunnudag. 

Úrslitaleikurinn á sunnudag var einnig áhorfsmesta útsending af knattspyrnuleik í Bandaríkjunum frá því árið 2015 þegar bandaríska liðið lagði Japana að velli á síðasta heimsmeistaramóti. Sá leikur var áhorfsmesti úrslitaleikur í sögu heimsmeistaramóts kvenna, en um 15,2 milljónir Bandaríkjamanna horfðu á leikinn á FOX-sjónvarpsstöðinni á einu kvöldi. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert