Þrjú á leið á EM í Svíþjóð

Andrea Kolbeinsdóttir, til vinstri.
Andrea Kolbeinsdóttir, til vinstri. mbl.is/Stella Andrea

Þrír Íslendingar taka þátt í Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum fyrir 20-22 ára sem hefst í Gävle í Svíþjóð á fimmtudaginn og lýkur á sunnudaginn. Þátttakendur eru 1.105 talsins frá 49 löndum.

Andrea Kolbeinsdóttir keppir í 10.000 metra hlaupi á föstudaginn. Hún náði einnig lágmarki fyrir mótið í 3.000 m hindrunarhlaupi en tekur ekki þátt í þeirri grein. Andrea hefur helst hlaupið 10 km í götuhlaupum og er þar með næstbesta árangur íslenskrar konu frá upphafi, 35,45 mínútur.

Dagbjartur Daði Jónsson á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í vor.
Dagbjartur Daði Jónsson á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í vor. Ljósmynd/FRÍ


Dagbjartur Daði Jónsson keppir í spjótkasti en þar fer undankeppnin fram á fimmtudag og úrslitakeppnin á laugardag. Hann á lengsta kast ársins á Íslandi, 78,30 metra, en hann náði því þegar hann vann mót í Svíþjóð í lok júní og er í áttunda sæti á styrkleikalista Evrópu í þessum aldursflokki. Þá fékk hann gullverðlaun á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í lok maí. Dagbjartur er sjötti besti spjótkastari Íslands frá upphafi.

Irma Gunnarsdóttir í langstökki.
Irma Gunnarsdóttir í langstökki. mbl.is/Skapti Hallgrímsson


Irma Gunnarsdóttir keppir í sjöþraut en hún varð Norðurlandameistari í þessum aldursflokki á síðasta ári þegar hún fékk 5.401 stig sem er hennar besti árangur. Hún er sjötta best í sjöþraut á Íslandi frá upphafi með þann árangur. Sjöþrautin fer fram á fimmtudag og föstudag.

Thelma Lind Kristjánsdóttir, Íslandsmethafi í kringlukasti, náði einnig lágmarki á mótið en þurfti að hætta við þátttöku vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert