Uppfyllti draum móður sinnar og fór í sögubækurnar

Simona Halep vann sinn fyrsta sigur á Wimbledon-mótinu í dag …
Simona Halep vann sinn fyrsta sigur á Wimbledon-mótinu í dag gegn sigursælustu konu tennis íþróttarinnar. AFP

Rúmeninn Simona Halep gerði sér lítið fyrir og lagði hina bandarísku Serenu Williams að velli í úrslitaleik á Wimbledon-mótsins í tennis í einliðaleik kvenna í dag. Halep vann öruggan 2:0-sigur og Serena sá aldrei til sólar í einvíginu en Halep er fyrsti Rúmeninn til þess að vinna sigur á risamóti í tennis. 

Halep vann fysta settið örugglega, 6:2, og annað settið líka 6:2 og viðureignina því samanlagt 2:0. Þetta var fyrsti sigur Halep á Wimbledon-mótinu en Serena hefur unnið mótið sjö sinnum á ferlinum, síðast árið 2016.

„Þetta var minn besti leikur á ferlinum,“ sagði hin 27 ára gamla Halep í samtali við BBC eftir leik. „Móðir mín tjáði mér það þegar að ég var tíu ára að ef ég ætlaði að fara í tennis þá vildi hún sjá mig vinna Wimbledon einn daginn og það tókst í dag,“ sagði Halep ennfremur.

Serena, sem er orðin 37 ára gömul, hefur nú tapað þremur úrslitaleikjum risamóts á síðustu tólf mánuðum. Hún bíður því enn eftir því að vinna sinn 24. titil á risamóti og jafna þar með met Margaret Court yfir fjölda titla í sögunni.

Serena, með sína 23 titla, hefur hins vegar þegar unnið metfjölda síðan núverandi fyrirkomulag var tekið upp og fór fram úr Steffi Graf árið 2017 þegar hún síðast vann risatitil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert