ÍR-ingar hrósuðu sigri á Meistaramótinu

Aníta Hinriksdóttir fremst í flokki í 800 metra hlaupinu í …
Aníta Hinriksdóttir fremst í flokki í 800 metra hlaupinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

ÍR hrósaði sigri í liðakeppninni á 93. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem lauk á Laugardalvellinum í dag.

Þetta var þriðja árið í röð sem ÍR fagnar sigri en liðið hlaut 76 stig, FH varð í öðru sæti með 72 og Breiðablik hafnaði í þriðja sætinu með 27 stig.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR varð Íslandsmeistari í 200 metra hlaupi kvenna. Hún kom í mark á 24,51 sekúndu. Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH varð önnur á 25,21 sekúndum og Andrea Torfadóttir úr FH hafnaði í þriðja sætinu á 25,28 sekúndum.

FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson kom fyrstur í mark í 200 metra hlaupi karla. Félagi hans úr FH, Ari Bragi Kárason, varð annar og Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS varð þriðji. Tímatökubúnaðurinn klikkaði og því voru engir tímar á hlaupurunum í 200 metra hlaupinu.

ÍR vann þreffaldan sigur í 800 metra hlaupi kvenna. Aníta Hinriksdóttir úr ÍR varð hlutskörpust á tímanum 2.08,17 mínútum. Ingibjörg Sigurðardóttir varð önnur á 2.21,69 mín. og Iðunn Björg Arnaldsdóttir varð þriðja á tímanum á tímanum 2.22.10 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert