Öryggið uppmálað hjá þeim bestu

Vigdís Jónsdóttir setti mótsmet í sleggjukasti á Meistaramótinu.
Vigdís Jónsdóttir setti mótsmet í sleggjukasti á Meistaramótinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls voru þrjú mótsmet sett á 93. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvelli í Reykjavík um helgina. Spennan var mismikil en fremsta frjálsíþróttafólk landsins vann mjög afgerandi sigra í sínum greinum og þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum.

Tvö mótsmet voru sett í sleggjukasti, en Hilmar Örn Jónsson úr FH setti mótsmet í karlaflokki í gær þegar hann kastaði sleggjunni 73,42 metra. Hilmar vann öruggan sigur, en hann kastaði sleggjunni tæplega fimmtán metrum lengra en Vilhjálmur Árni Garðarsson, sem hafnaði í öðru sæti.

„Ég vissi ekki alveg hverju ég mátti eiga von á. Ég er búinn að vera nokkuð stöðugur að undanförnu en samt veit maður einhvern veginn aldrei. Það er alltaf gaman að setja mótsmet og ég fæ helling af stigum líka í nýja stigakerfinu hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands þannig að þetta var bara fínn dagur heilt yfir,“ sagði Hilmar Örn Jónsson í samtali við Morgunblaðið á Laugardalsvelli í gær.

Tímabilið hefur verið langt og strangt hjá Hilmari og hann viðurkenndi fúslega að vera farinn að finna fyrir þreytu í líkamanum.

„Þetta hefur verið mjög langt tímabil hjá mér og ég er í raun bara búinn að vera á fullu síðan í mars á þessu ári. Ég get alveg viðurkennt það að ég finn það að líkaminn er aðeins farinn að þreytast en samt sem áður er ég í hörkuformi og það er aldrei að vita nema nýtt Íslandsmet verði sett á næstu vikum.“

Hilmar setur stefnuna á HM í Doha í Katar sem hefst í lok september og segir að markmiðið á næstu vikum verði að kasta eins langt og hann getur.

„Ég er alveg á grensunni með að komast inn á HM. Þeir taka inn 32 og eins og staðan er í dag er ég í 28. sæti og það kemur ekki í ljós fyrr en 6. september hverjir komast inn á HM. Ég ætla þess vegna að reyna að keyra á metið og reyna að kasta eins langt og ég get til þess að hækka mig á listanum, næstu tvær vikurnar, og svo held ég bara áfram að æfa fyrir HM.“

Aníta Hinriksdóttir komin með forystu í 800 metra hlaupinu þar …
Aníta Hinriksdóttir komin með forystu í 800 metra hlaupinu þar sem hún kom fyrst í mark. mbl.is/Árni Sæberg

Fagnar aukinni samkeppni

Vigdís Jónsdóttir úr FH setti mótsmet í sleggjukasti kvenna þegar hún kastaði 59,67 metra en hún fagnaði því að vera loksins komin með samkeppni í greininni í samtali við blaðamann eftir að úrslitin lágu fyrir.

„Ég er búin að detta aðeins niður eftir að ég sneri heim frá Bandaríkjunum en 59,67 metrar eftir slaka byrjun á sumrinu er nokkuð sem ég get lifað með. Það er auðvitað alltaf gaman að setja mótsmet og vinna, þar sem mér leið í raun bara illa á ákveðnum tímapunkti í vetur. Ég er hins vegar með frábært fólk í kringum mig og þetta er allt á uppleið hjá mér,“ sagði Vigdís.

Vigdís breytti um ákveðna taktík í vetur ásamt þjálfara sínum í Bandaríkjunum og er stefnan núna sett á að toppa seinna á árinu, en hún hefur venjulega verið að kasta best á fyrstu mánuðum ársins.

„Þetta hefur verið langt og strangt tímabil hjá mér. Ég byrjaði að keppa í janúar á þessu ári úti í Bandaríkjunum og er í raun bara búin að vera að keppa samfleytt í einhverja sex mánuði núna og það tekur smá tíma að venjast þessu álagi. Planið var samt sem áður að reyna að toppa í júní/júlí og mér finnst það hafa gengið nokkuð vel eftir. Venjan hjá mér í gegnum tíðina hefur verið að toppa í mars en þjálfarinn minn í Bandaríkjunum hefur sett stefnuna á að reyna að seinka því aðeins þannig að ég sé að ná stærri árangri á stærri mótum.“

Markmið Vigdísar á næstu vikum er að koma sér í lið Íslands sem tekur þátt í Evrópubikarnum sem fram fer í Bydgoszcz í Póllandi um miðjan ágúst.

Sjá ítarlega umfjöllun um Meistaramótið á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert