Þórdís Eva úr leik á EM

Þórdís Eva Steinsdóttir.
Þórdís Eva Steinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH hafnaði í 26. sæti í undanrásum í 400 metra hlaupi á Evrópumeistaramóti U20 ára í frjálsum íþróttum sem hófst í Borås í Svíþjóð í morgun.

Þórdís, sem varð Íslandsmeistari í greininni um síðustu helgi, kom í mark á 56,70 sekúndum og var með næstlakasta tíma þeirra sem tóku þátt í undanrásunum. Hún er þar með úr leik en 16 fyrstu komust áfram í undanúrslitin.

Á morgun keppir Valdimar Hjalti Erlendsson í undankeppni í kúluvarpi og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir tekur þátt í undanrásum í 200 metra hlaupi.

mbl.is