Ísland í hörðum slag um efsta sætið

Ásdís Hjálmsdóttir kastaði spjóti lengst.
Ásdís Hjálmsdóttir kastaði spjóti lengst. Ljósmynd/FRÍ

Ísland er í öðru sæti eftir fyrri daginn í Evrópubikar landsliða í frjálsum íþróttum í Skopje í Norður-Makedóníu. Íslendingar stóðu uppi sem sigurvegarar í fjórum greinum og náðu öðru sæti sex sinnum. 

Íslenska liðið er í þriðju og neðstu deild mótsins og er í harðri baráttu við Serbíu um efsta sætið, en ein þjóð fer upp um deild. Serbía er með 230 stig eftir fyrsta daginn og Ísland 222 stig. Bosnía er í þriðja sæti með 206 stig. 

Hulda Þorsteinsdóttir stökk 3,60 metra í stangarstökki og bar sigur úr býtum. Ásdís Hjálmsdóttir kastaði spjóti lengst allra eða 57,04 metra. 

Ísland var sterkt í 4x100 metra boðhlaupi og vann bæði í karla- og kvennaflokki. Andrea Torfadóttir, Dóróthea Jóhannesdóttir, Agnes Kristjánsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hlupu á 45,81 sekúndum. 

Agnes Kristjánsdóttir, Andrea Torfadóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Dóróthea Jóhannesdóttir …
Agnes Kristjánsdóttir, Andrea Torfadóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Dóróthea Jóhannesdóttir hlupu á 45,81 sekúndum. Ljósmynd/FRÍ

Juan Ramón Bosque, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason komu fyrstir í mark í karlaflokki á 40,44 sekúndum. 

Hlaupadrottningarnar tóku silfur

Íslensku hlaupadrottningarnar Aníta Hinriksdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir þurftu báðar að sætta sig við annað sæti. Guðbjörg kom í mark á 11,58 sekúndum í 100 metra hlaupi, 0,08 sekúndum á eftir Milana Tirnanic frá Serbíu. Aníta hljóp 800 metra á 2:06,16 mínútum og var 0,3 sekúndum á eftir Jelena Gajic frá Bosníu. 

Aníta Hinriksdóttir endaði í öðru sæti í 800 metra hlaupi.
Aníta Hinriksdóttir endaði í öðru sæti í 800 metra hlaupi. Ljósmynd/FRÍ

Hilmar Örn Jónsson hafnaði í öðru sæti í sleggjukasti. Hann kastaði lengst 72,43 metra. Ívar Kristinn Jasonarson kom annar í mark í 400 metra grindahlaupi á 52,56 sekúndum og Hlynur Andrésson tók annað sætið í 1.500 metra hlaupi. Hann hljóp á 3:49,29 mínútum. Þá hafnaði Þórdís Eva Steinsdóttir í öðru sæti í 400 metra hlaupi á tímanum 53,23 sekúndur. 

Juan Ramón Bosque, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og …
Juan Ramón Bosque, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason komu fyrstir í mark í karlaflokki á 40,44 sekúndum. Ljósmynd/FRÍ
mbl.is