Ísland vann gull og fer upp um deild

Íslenska liðið á verðlaunapalli eftir að hafa unnið til gullverðlauna …
Íslenska liðið á verðlaunapalli eftir að hafa unnið til gullverðlauna og komið sér upp um deild. Ljósmynd/FRÍ

Ísland vann til gullverðlauna í Evrópubikar landsliða í frjálsum íþróttum í Skopje í Norður-Makedóníu í dag. Íslendingar stóðu uppi sem sigurvegarar í 3. deildinni en eitt lið fer upp um deild.

Ísland var í öðru sæti eftir fyrri keppnisdaginn í gær en lauk keppni í dag með 430 stig, þremur stigum meira en Serbía. Brons varð niðurstaðan í tveimur fyrstu keppnisgreinum dagsins er Vigdís Jónsdóttir kastaði 61,52 metra í sleggjukasti og Benjamín Jóhann Johnsen stökk 4,51 metra í stangarstökki.

María Rún Gunnlaugsdóttir hreppti svo silfur í 100 metra hindrunarhlaupi er hún hljóp á sínum besta tíma, 14,21 sekúndu. María fékk einnig brons í hástökki en hún stökk hæst 1,75 metra og jafnaði þar við sitt besta stökk. Erna Sóley Gunnarsdóttir fékk silfur í kúluvarpi er hún kastaði 15,85 metra og Aníta Hinriksdóttir varð önnur í 1.500 metra hlaupi á tímanum 4:36,33.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Ljósmynd/FRÍ

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann svo gullverðlaun í 200 metra hlaupi, Dagbjartur Daði Jónsson fékk brons í spjótkasti er hann kastaði 74,18 metra og Kolbeinn Höður Gunnarsson fékk silfur í 200 metra hlapi á tímanum 21,53. Birna Kristín Kristjánsdóttir fékk brons í langstökki er hún stökk 5,73 metra og Valdimar Hjalti Erlendsson fékk brons í kringlukasti en hann kastaði lengst 51,20 metra.

Hlynur Andrésson fékk silfur í 3.000 metra hlaupi en tíminn hans var 8:15,18 og þá vann Ísland til verðlauna í boðhlaupum kvenna og karla sem voru síðustu greinarnar. Þær Glódís Edda Þuríðardóttir, Guðbjörg Jóna, Agnes Kristjánsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir fengu silfur í 4x400 metra boðhlaupi og Kolbeinn Höður, Kormákur Áki Hafliðason, Hinrik Snær Steinsson og Ívar Kristinn Jasonarson hrepptu silfur í sömu grein karla.

mbl.is