Þetta sat í mér lengi

Gunnleifur Gunnleifsson er klár í slaginn.
Gunnleifur Gunnleifsson er klár í slaginn. mbl.is/Hari

„Ég hlakka alltaf til þegar ég fer að spila fótbolta. Auðvitað er þetta aðeins öðruvísi en oftast, það er mikið í húfi, þannig það er extra mikil tilhlökkun," sagði Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is í dag. 

Gunnleifur og félagar mæta Víkingi R. á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins annað kvöld. Breiðablik fór síðast í úrslit í fyrra, en Víkingur hefur ekki leikið í bikarúrslitum síðan 1971 og er því um stórt tilefni hjá Víkingum. 

„Þeir fóru í bikarúrslit 1971 og hafa ekki farið síðan. Þetta er risaleikur fyrir þá og það er mikið í húfi. Úrslitaleikurinn er stærsti leikur ársins og við þekkjum það frá því í fyrra. Þetta verður frábær skemmtun."

Gunnleifur viðurkennir að það hafi verið afar sárt að tapa í vítaspyrnukeppni gegn Stjörnunni í úrslitum í fyrra. Hann er því staðráðinn í að fara skrefinu lengra í ár. 

„Það var mjög þungt og mjög erfitt. Ég er ekki vanur að láta tapleiki sitja í mér lengi. Ég þurrka þá út venjulega daginn eftir, eitthvað svoleiðis, en þetta sat í mér lengi. Það var mjög erfitt og ég er hungraður í að komast aftur í úrslitaleik og komast lengra en í fyrra," sagði Gunnleifur. 

Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, huggar Gunnleif eftir úrslitaleikinn í fyrra.
Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, huggar Gunnleif eftir úrslitaleikinn í fyrra. mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is