Átta ára bann fyrir hagræðingu úrslita

Juan Carlos Sáez fékk háa fjársekt og átta ára keppnisbann …
Juan Carlos Sáez fékk háa fjársekt og átta ára keppnisbann fyrir hagræðingu úrslita. AFP

Tenniskappinn Juan Carlos Sáez frá Síle hefur verið úrskurðaður í átta ára bann fyrir hagræðingu úrslita en það er BBC sem greinir frá þessu. Þá þarf hann að greiða 10.300 pund í sekt en það samvarar 1,5 milljónum íslenskra króna.

Sáez er 28 ára gamall en hann var boðaður í yfirheyrslur hjá Alþjóðatennissambandinu vegna óeðlilegra veðmála í kringum leiki hans. Sáez neitaði að afhenda síma sinn til frekari rannsókna en hann var um tíma i 230. sæti heimslistans árið 2015.

Þá viðurkenndi Sáez í samtali við fjölmiðla að hafa fengið beiðnir um hagræðingu úrslita en Sílemaðurinn lét aldrei vita af því. Sáez er í dag í 1.082. sæti heimslistans en hann má ekki keppa aftur í tennis fyrr en árið 2027.

mbl.is