Ekki var gert ráð fyrir fullkomnun

Hér má sjá hversu illa stigataflan í Montreal 1976 réði …
Hér má sjá hversu illa stigataflan í Montreal 1976 réði við getu Nadiu Comãneci. Reuters

Stórtíðindi urðu í íþróttasögunni í fimleikakeppni Ólympíuleikanna í Montreal árið 1976. Nadia Comãneci frá Rúmeníu, eða „Fiðrildið frá Onesti“ eins og hún er kölluð, varð þá fyrst í sögu Ólympíuleikanna til að gera fullkomnar æfingar í áhaldafimleikum. Comãneci vann til þrennra gullverðlauna á leikunum og fékk alls sjö sinnum tíu í einkunn fyrir æfingar sínar í liða- og einstaklingskeppni.

Frammistaða Comãneci gerði það að verkum að þessi tæplega 15 ára stúlka var kölluð drottning leikanna. Þrátt fyrir ungan aldur hafði Comãneci æft fimleika af fullum krafti í áratug og færði meiri fórnir en gengur og gerist í afreksíþróttunum. Hún var þó ekki óþekkt því hún hafði vakið athygli íþróttaheimsins á EM í Noregi árið áður og var þá valin íþróttakona ársins af þá stórri alþjóðlegri fréttaveitu: United Press International.

Fráleitt að einhver fái 10

Fyrsta tían hjá Comãneci leit dagsins ljós í liðakeppni leikanna. Tækjabúnaðurinn í fimleikahöllinni gerði ekki ráð fyrir slíkri frammistöðu og tveggja stafa tala var ekki í boði á rafrænu einkunnaspjaldinu. Þar stóð því einfaldlega 1.00 þegar sú rúmenska fékk 10 í einkunn fyrir æfingar sínar. Áhorfendur höfðu heillast af frammistöðu hennar en urðu svolítið ringlaðir þegar þeir sáu 1.00 á skjánum. Þeir áttuðu sig hins vegar fljótt á því hvað gerst hafði og trylltust af fögnuði.

Hér má sjá stigatöfluna í baksýn eftir æfingar hinnar rúmensku.
Hér má sjá stigatöfluna í baksýn eftir æfingar hinnar rúmensku.

Merkilegt er til þess að vita að skömmu fyrir leikana í Montreal hafði það borist í tal hvort gera þyrfti ráð fyrir tveggja stafa tölu í einkunnagjöfinni. Fróðir menn og aðstandendur fimleikakeppninnar töldu slíkar vangaveltur með öllu óþarfar. Fráleitt væri að slík staða gæti komið upp að dómararnir myndu gefa einhverjum 10 í einkunn á Ólympíuleikum.

Tölvustýrða undrabarnið

Morgunblaðið var með puttann á púlsinum í aðdraganda leikanna 1976 og velti því fyrir sér í magnaðri grein hvort Nadia Comãneci, eða austurþýska sundkonan Kornelía Ender, yrði drottning leikanna. „Nadia hóf feril sinn þegar hún var aðeins fimm ára. Þá þegar hófust æfingar hennar með fyrirhugaðri þáttöku í Ólympíuleikunum í Montreal, en tækist ekki að koma henni á toppinn þar átti að stefna að leikunum í Moskvu 1980. Nadia reyndist hins vegar betri nemandi en þjálfarar hennar gerðu ráð fyrir þannig að ekki er ólíklegt að hún fái að hætta eftir leikana í Montreal ef vel tekst til þar.

Það var núverandi þjálfari Nadiu, Béla Károly, sem kom auga á hæfileika hennar þegar hún var að leika sér með öðrum börnum í leikskóla í heimabæ sínum sem heitir Onesti. Var Nadiu og foreldrum hennar þegar boðið að flytja til borgarinnar Dej og Gheorghieu, en þar er mjög góð æfingaaðstaða. Þáðu þau strax boðið og síðan hefur Nadia verið í þjálfun frá morgni til kvölds. Þykir mörgum nóg um, og segja að stúlkan sé eins og vélmenni. Það sé nóg að stilla upp einhverju kerfi, og síðan fari hún í gang og útfæri það eftir því sem „götin á gestaspjaldinu“ segja fyrir um. Þess má geta að Nadia hefur ekki komið heim til foreldra sinna síðan hún var sjö ára. Hún býr hjá þjálfara sínum og konu hans. Er það gert til þess að tryggja að hún fái jafnan rétt fæði. Súkkulaði hefur Nadia t.d. ekki smakkað síðan hún var í leikskóla!“

Þannig skrifaði Morgunblaðið meðal annars um fimleikastjörnuna hinn 20. júlí árið 1976 en greinin hét því skemmtilega nafni: „Tölvustýrða undrabarnið Comaneci.“

Nadia Comãneci nær í 10 í einkunn á tvíslá í …
Nadia Comãneci nær í 10 í einkunn á tvíslá í Montreal hinn 18. júlí 1976. AP

Engin Bjarmalandsför á HM

Eftir að hafa heillað íþróttaheiminn á leikunum í Kanada tók við tímabil sem ekki var eins glæsilegt. Strax á hinu ágæta ári 1977 átti sér stað sérkennileg uppákoma á Evrópumeistaramótinu í Prag. Nadia Comãneci varði titil sinn í fjölþraut. Einhverjar deilur sköpuðust um einkunnagjöf í mótinu og virðist það hafa verið meira en kommúnistaforinginn og einræðisherrann Nicolae Ceaucescu þoldi. Hann skipaði rúmenska liðinu að snúa þegar í stað heim þegar mótið stóð sem hæst og þeirri skipun var hlýtt.

Heimsmeistaramótið 1978 var engin Bjarmalandsför fyrir Comãneci enda hafði þá mikið gengið á. Hún var skikkuð til að skipta um þjálfara en hún hafði frá 7 ára aldri verið undir handleiðslu hjónanna Béla og Marta Károly sem ráku fimleikaskóla í Onesti. Hún var send í æfingabúðir til höfuðstaðarins Búkarest og var mjög óhamingjusöm. Auk þess hafði hún tekið út líkamlegan þroska og var þyngri en í Montreal. Hún hafnaði í 4. sæti í fjölþrautinni en fékk þrátt fyrir allt gullverðlaun á einu áhaldi, jafnvægislánni auk gullverðlauna í liðakeppni.

Vann aftur gull í Moskvu

Nadia Comãneci fékk að endurnýja samstarfið við sína gömlu þjálfara að heimsmeistaramótinu loknu. Henni tókst í framhaldinu að sanna sig á ný og varð Evrópumeistari þriðja árið í röð árið 1979 en slíkt hafði enginn afrekað í fimleikum. HM var aftur haldið í lok árs 1979 og þar sigraði hún á jafnvægisslánni og fékk gull í liðakeppni. Hún lenti á sjúkrahúsi í mótinu miðju vegna blóðeitrunar. Þvert gegn ráðleggingum lækna mætti hún til leiks í liðakeppninni og tryggði Rúmeníu heimsmeistaratitilinn. Fyrir vikið þurfti hún að liggja á sjúkrahúsinu í marga daga á eftir.

Nadia Comãneci lauk ferli sínum með því að bæta ólympíuverðlaunum í safnið á leikunum í Moskvu árið 1980. Eins og oft áður vann hún gullverðlaun á jafnvægislánni en einnig í gólfæfingum. Hún fékk silfurverðlaun í fjölþrautinni og í liðakeppninni. Gagnrýnin sem hún þurfti að þola árið 1978 var nú hjákátleg enda orðin goðsögn í íþróttaheiminum og það aðeins 18 ára gömul.

Rúmenska fimleikadrottningin hætti keppni árið 1981 en sama ár fór hún í sýningarferð um Bandaríkin. Károly-hjónin létu það hins vegar ekki nægja heldur urðu eftir í von um betra líf í Vesturheimi. Rúmenski kommúnistaflokkurinn hafði engan húmor fyrir slíkum uppátækjum og kirfilega var fylgst með ferðum Nadia Comãneci á næstu árum.

Beið ekki boðanna

Hún fékk að fara til ríkja sem voru á réttri línu eins og til Sovétríkjanna og Kúbu en fékk ekki að ferðast út fyrir heimalandið að öðru leyti. Henni var leyft að fara til Los Angeles og fylgjast þar með Ólympíuleikunum en var undir ströngu eftirliti. Þegar byltingin var í aðsigi í Rúmeníu seint á níunda áratuginum beið Comãneci ekki boðanna og lagði á flótta.

Nadia Comãneci. Í baksýn er fræg forsíða Time tímaritsins.
Nadia Comãneci. Í baksýn er fræg forsíða Time tímaritsins. mbl.is

Aftur til Montreal

Það var kannski við hæfi í ljósi sögunnar að Nadia Comãneci settist að í Montreal í Kanada eftir að hafa komið við í Ungverjalandi og í Austurríki. Béla Károly aðstoðaði hana við að flytja til Kanada ásamt landa þeirra Alexandru Stefu sem var þjálfari í ruðningi.

Árið 1994 fluttist hún búferlum til Oklahoma og giftst síðar Bandaríkjamanninum Bart Conner. Nadia Comãneci átti afturkvæmt til Rúmeníu eftir byltinguna og þau giftu sig í Búkarest árið 1996. Veislan var haldin í gömlu forsetahöllinni og brúðkaupinu var sjónvarpað beint í Rúmeníu. Hjónakornin bjuggu þó áfram í Oklahoma en Nadia Comãneci er í dag með bæði bandarískt og rúmenskt vegabréf. Þar sem hún var bara unglingur þegar hún varð heimsfræg er hún ekki nema 51 árs gömul þegar þetta er skrifað.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 27. september 2012.

mbl.is