Einn sá besti rekinn eftir einn leik

Antonio Brown í sínum eina leik með New England Patriots.
Antonio Brown í sínum eina leik með New England Patriots. AFP

Bandaríska ruðningsfélagið New England Patriots rak í kvöld útherjann Antonio Brown, þar sem hann hefur verið kærður fyrir nauðgun af fyrrverandi einkaþjálfaranum sínum. 

Britney Taylor kærði Brown tveimur dögum eftir að hann samdi við Patriots. Hún fundaði svo með forráðamönnum NFL-deildarinnar í kjölfarið. 

Brown var aðeins ellefu daga hjá félaginu og spilaði einn leik, en hann var á dögunum látinn laus frá Oakland Raiders, þar sem hann neitaði að spila með liðinu. 

Brown, sem er einn besti útherji deildarinnar, skoraði snertimark í sínum eina leik með Patriots, sem er ríkjandi meistari í NFL-deildinni. 

mbl.is