Þriðja sætið ekki ásættanlegt

Davíð Þór Viðarsson með boltann í leik fyrr í sumar. …
Davíð Þór Viðarsson með boltann í leik fyrr í sumar. Hann leggur skóna á hilluna eftir leik FH gegn Grindavík á laugardag. mbl.is/Hari

Við vorum ekki nógu góðir í dag,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, eftir 3:2-tap gegn KR í 21. umferð Pepsi-Max deildar karla í knattspyrnu í dag. FH-ingar eru í þriðja sæti, með tveggja stiga forskot á Stjörnuna fyrir lokaumferðina í baráttunni um Evrópusæti.

Davíð segir að FH hafi byrjað vel en KR-ingar jöfnuðu metin örfáum mínútum eftir að Steven Lennon kom FH yfir á 10. mínútu. Eftir það fannst Davíð eins og eitthvað hefði gerst og segir hann FH-inga ekki hafa náð sér á strik eftir ágæta byrjun.

„Við ætluðum að tryggja Evrópusætið í dag. Okkar markmið var að klára þetta hérna með sigri í dag,“ sagði Davíð.

Pálmi Rafn Pálmason skoraði sigurmark KR úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Cédric D'ulivo var talinn hafa brotið á Óskari Erni Haukssyni. „Mér fannst þetta ekki vera víti. Mér fannst Cédric bara taka boltann en ég er ekki búinn að sjá þetta aftur,“ sagði Davíð. 

FH tekur á móti föllnum Grindvíkingum í síðasta leik og verður að vinna til að gulltryggja sér Evrópusætið. Spurður hvort árangur tímabilsins þyki ásættanlegur ef FH nær Evrópusæti segist Davíð fara í öll mót til að vinna:

„Við erum FH og það er ekkert ásættanlegt að lenda í þriðja sæti, finnst mér. Ég hef farið inn í hvert einasta Íslandsmót til að vinna það og allt annað eru vonbrigði. Auðvitað skiptir samt miklu máli að ná þessu Evrópusæti,“ sagði Davíð sem leikur sinn síðasta leik á ferlinum á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert