Kominn með nóg af NFL-deildinni

Antonio Brown segist ekki ætla að spila fleiri leiki í …
Antonio Brown segist ekki ætla að spila fleiri leiki í NFL-deildinni. AFP

Antonio Brown, fyrrverandi útherji New England Patriots í bandarísku NFL-deildinni, segist vera hættur að spila í deildinni en Brown greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi. Mikið fjaðrafok hefur verið í kringum leikmanninn að undanförnu en hann var látinn fara frá Patriots á dögunum efti að hann var kærður fyrir nauðgun af fyrrverandi einkaþjálfara sínum.

Brown var ekki lengi í herbúðum Patriots en hann gekk til liðs við félagið hinn 9. september og entist því aðeins í ellefu daga hjá félaginu. Hann gekk til liðs við Oakland Raiders í mars en var látinn fara frá félaginu í byrjun september. Brown hóf feril sinn í NFL-deildinni hjá Pittsburgh Steelers þar sem hann lék í átta ár á árunum 2010 til 2018.

„Ég mun ekki spila í NFL-deildinni,“ sagði Brown á Twitter. „Eigendur félaganna geta gert hvað sem þeir vilja, hvenær sem er og neita að standa við gerða samninga. Við sjáum hvort leikmannasamtökin geti staðið upp í hárinu á þeim,“ sagði Brown á Twitter en leikmannasamtök NFL-deildarinnar vinna nú að því að Brown fái greiddan samninginn sem hann gerði við Patriots sem hljóðaði upp á 15 milljónir bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert