Ein helsta von Bandaríkjanna í júdói er látin

Jack Hatton.
Jack Hatton. Ljósmynd/bandaríska júdósambandið

Júdókappinn Jack Hatton, sem var talinn helsta von Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári, lést óvænt í gær aðeins 24 ára gamall.

Bandaríska júdósambandið greinir frá þessu. Hatton vann til margra verðlauna á mótum erlendis og keppti um að komast á Ólympíuleikana sem hann átti góða möguleika á að komast á. Hann hóf að æfa júdó aðeins fimm ára gamall.

„Það er með afar þungt hjarta sem bandaríska júdósambandið tilkynnir óvænt andlát landsliðsmannsins, Jacks Hattons. Við sendum fjölskyldu Hattons, liðsfélögum, þjálfurum og vinum innilegustu samúðarkveðjur.

Jack var einn af fremstu júdómönnum Bandaríkjanna og var margfaldur meistari á mótum um allan heim,“ segir í tilkynningu frá júdósambandinu en ekki er greint frá orsökum andlátsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert