Reis úr öskustónni

Ana Fidelia Quirot kemur fyrst í mark á HM í …
Ana Fidelia Quirot kemur fyrst í mark á HM í Aþenu árið 1997 og varði þar með titil sinn í greininni. Reuters

Að loknum Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 var talið að Önu Fideliu Quirot frá Kúbu væru allir vegir færir á hlaupabrautinni. Hún hafði þá nælt sér í bronsverðlaun í 800 metra hlaupi á leikunum.

Hún hafði auk þess fengið silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu í Tókýó árið 1991 og hafði því sannað sig rækilega á meðal þeirra bestu í heiminum í greininni. Quirot var 29 ára gömul í Barcelona 1992 og var því að nálgast sín bestu ár í íþróttinni.

Quirot var afar vinsæl í heimalandinu og naut auk þess velþóknunnar einræðisherrans Fidels Castros. Margt fer hins vegar öðruvísi en ætlað er og árið 1993 urðu straumhvörf í lífi íþróttakonunnar. Quirot var þá ófrísk en þar var um að ræða ávöxt ástarsambands hennar og hástökkvarans heimsfræga, Javiers Sotomayors, sem var þó lokið þegar þar var komið sögu. Örlögin gripu hressilega í taumana þegar hún stóð við eldstæðið á heimili sínu og átti sér einskis ills von.

Slysið skelfilega

Quirot var stödd í eldhúsinu á heimili sínu á Havana hinn 23. janúar árið 1993 þegar ógæfan dundi yfir. Hún hugðist þvo föt á steinolíueldavél sinni og skvetti eldfimum vökva í pott með heitu vatni. Hún gerði sér ekki grein fyrir því að kveikt var á vélinni og þegar vökvinn lak niður meðfram pottinum blossaði upp eldur. Úr varð mikið bál og Quirot brann afar illa og var í bráðri lífshættu. Lífi hennar tókst að bjarga en tvísýnt var um þau málalok. Hinu ófædda barni varð þó ekki bjargað. Það kom lifandi í heiminn en dó viku síðar á sjúkrahúsinu.

Fyrir utan áfallið og sorgina sem höfðu áhrif á andlega heilsu hennar var líkamlegt ásigkomulag hennar slæmt. Hún var með alvarleg brunasár á 38% líkamans og í kjölfarið fylgdu alls kyns aðgerðir vegna þeirra næstu mánuðina. Fidel Castro heimsótti hana á sjúkrabeðinn skömmu eftir slysið og þá sagðist hún ætla að keppa á ný. Ekki var hins vegar tekið mikið mark á þeirri yfirlýsingu þar sem hún var í annarlegu ástandi og líkaminn nánast í stöðugu sjokki vegna brunans.

Kjaftasögur fóru á kreik

Í erfiðri endurhæfingunni mun lífsþróttur Quirot ekki hafa verið mjög mikill. Henni leist illa á að fara út á meðal fólks með mikil brunasár á hálsi og andliti en hún mun hafa verið umtöluð fyrir hversu andlitsfríð hún var áður en slysið henti hana. 

Ana Fidelia Quirot fagnar sigri.
Ana Fidelia Quirot fagnar sigri. Reuters

Það bættist því ofan á allt annað og almannarómur var henni heldur ekki hagstæður. Gengu um það miklar sögur á Kúbu að bruninn hefði verið sjálfsmorðstilraun eða einhvers konar örvæntingarfull tilraun til að ná athygli Sotomayors. Þau voru ekki par en síðar greindi Quirot frá því að Sotomayor hefði sýnt henni stuðning í kjölfar slyssins og verið hjálplegur. Quirot blés jafnframt á þessar kjaftasögur í viðtölum. „Ef þú ert frægur, þá eru stöðugar vangaveltur í gangi – og aldrei þér í hag,“ sagði Quirot meðal annars í viðtali við bandaríska tímaritið Sports Illustrated.

Útskrifuð eftir þrjá mánuði

Þegar Quirot fór að hressast var nú ekki djúpt á keppnismanninum í henni og henni óx ásmegin í endurhæfingunni. Svo mjög reyndar að hún var útskrifuð af sjúkrahúsinu eftir þrjá mánuði en talið var að þar þyrfti hún að dvelja í eitt ár. Þótt mikið hefði verið á hana lagt náði hún sér líkamlega og hóf aftur æfingar og keppni. Hún segir að vonin um að komast aftur í keppnisform hafi í raun verið hennar líflína.

„Ef ég hefði ekki verið íþróttamaður í fremstu röð hefði ég varla haft þetta af. Í keppnisíþróttum lærir þú að leggja mikið á þig,“ sagði Quirot um upprisu sína. Sjaldan er ein báran stök og sama ár og Quirot slasaðist lést fyrrverandi eiginmaður hennar, glímukappinn Raul Cascaret, í bílslysi.

Sigur í Svíþjóð

Quirot hristi öll þessi áföll af sér og ekki liðu nema tvö ár þar til hún varð heimsmeistari í 800 metra hlaupi í Gautaborg árið 1995. Ótrúlegt afrek ef tekið er tillit til alls þess sem hún hafði gegnið í gegnum og þá ber einnig að geta þess að lítið varð úr keppnistímabilinu 1994 hjá henni vegna tíðra lýtaaðgerða. Við þetta má bæta að hún þurfti að velja sér æfingatíma annaðhvort mjög snemma á morgnana eða seint á kvöldin því húðin hefði ekki þolað sólskinið í miklum mæli. Quirot fagnaði heimsmeistaratitlinum fyrir framan 42.453 áhorfendur á Ullevi-leikvanginum og afrek hennar vakti vitaskuld mikla athygli. 

Á verðlaunapallinum á Ólympíuleikunum í Atlanta.
Á verðlaunapallinum á Ólympíuleikunum í Atlanta. Reuters

„Þetta er fallegasti sigur lífs míns. Á mínum verstu augnablikum grunaði mig ekki að ég gæti snúið svo öflug til baka,“ sagði Quirot í samtali við Chicago Tribune að hlaupinu loknu.

Quirot hélt sínu striki og framganga hennar á Ólympíuleikunum í Atlanta árið eftir vakti einnig athygli en þá hafði upprisa hennar verið nokkuð í sviðsljósinu. Þar vann Quirot til silfurverðlauna eftir mikla keppnishörku í úrslitahlaupinu. Quirot tókst jafnframt að verja heimsmeistaratitil sinn í Aþenu árið 1997, þá 34 ára gömul, og að því loknu settist hún í helgan stein. Varð hún fyrst kvenna til þess að verða tvöfaldur heimsmeistari í 800 metra hlaupi.

Fidel og Fidelia

Eftir alla velgengnina varð Quirot alger þjóðhetja í heimalandinu og hópaðist fólk að henni þegar hún fór á stjá í höfuðborginni og þá sérstaklega ungviðið. Enda er saga hennar um margt athyglisverð og viljastyrkurinn öðrum til eftirbreytni. Þau Castro kepptust við að hrósa hvort öðru og gætti hún þess í viðtölum við erlenda fjölmiðla að bera lof á stjórnvöld í heimalandinu. Foreldrar hennar voru raunar svo miklir aðdáendur byltingarforingjans að þau skírðu dótturina Fideliu nokkrum árum eftir að Fidel Castro braust til valda.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 30. mars 2013 

Ana Fidelia Quirot.
Ana Fidelia Quirot. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert