Tímamótaviðburður í Vínarborg í morgun

Eliud Kipchoge á fullri ferð í Vínarborg í morgun.
Eliud Kipchoge á fullri ferð í Vínarborg í morgun. AFP

Tímamót urðu í frjálsíþróttasögunni í morgun þegar Eliud Kipchoge frá Kenía varð fyrstur í sögunni til þess að hlaupa maraþonhlaup, rúma 42 kílómetra, á skemmri tíma en tveimur klukkustundum.

Þetta gerði hann í Vínarborg í Austurríki í morgun þar sem hann hljóp vegalengdina á einni klukkustund, 59 mínútum og 40 sekúndum og rauf því tveggja stunda múrinn um 20 sekúndur.

Kipchoge er bæði heimsmethafi og Ólympíumeistari í maraþonhlaupi en hann hljóp einn í þessari mettilraun. Hann fær þetta þó ekki skráð sem opinbert heimsmet þar sem ekki var um hefðbundið maraþonhlaup að ræða, ásamt því að Kipchoge fékk aðstoð við að ná þessum ótrúlega tíma, en afrekið er skráð sem besti heimstími í greininni.


Hann hljóp fjórum sinnum 9,4 km langan hring í kringum garð í miðborg Vínar og hafði sér til liðsinnis 41 „héra“ sem hlupu með honum sjö og sjö í einu. Ávallt voru fimm þeirra hlið við hlið skammt á undan honum. Kipchoge hljóp hvern kílómetra á um það bil 2 mínútum og 50 sekúndum.

Auk þess komu þjálfarar Kipchoge til hans með vatn og orkugel á reiðhjóli, til þess að hann þyrfti ekki að teygja sig sjálfur eftir þeim varningi, en slík hjálp er ekki heimil í venjulegum keppnishlaupum.

Hlauparinn hefur áður gert slíka tilraun, í Monza á Ítalíu fyrir tveimur árum, en hún mistókst þar hann vantaði þá 26 sekúndur upp á að ná markinu.

Heimsmet Kipchoge í greininni er 2 klukkustundir, 1 mínúta og 39 sekúndur en það setti hann í Berlín á síðasta ári.

Aðstoðarmenn Eliud Kipchoge allt í kringum hann í hlaupinu í …
Aðstoðarmenn Eliud Kipchoge allt í kringum hann í hlaupinu í morgun. AFP
mbl.is