Biles sigldi fram úr Scherbo - sigursælust á HM

Simone Biles á jafnvægisslánni í Stuttgart í dag.
Simone Biles á jafnvægisslánni í Stuttgart í dag. AFP

Simone Biles frá Bandaríkjunum varð fyrir stundu sigursælasti fimleikamaður sögunnar á heimsmeistaramóti þegar hún hreppti gullverðlaun á jafnvægisslá á heimsmeistaramótinu í Stuttgart í Þýskalandi.

Hún náði þar með í sín 24. verðlaun á heimsmeistaramóti og þar sem þetta var hennar 18. gullpeningur fór hún fram úr Vitali Scherbo frá Sovétríkjunum og Hvíta-Rússlandi en hann vann 17 gullverðlaun á heimsmeistaramótum á tíunda áratug síðustu aldar.

Biles vann fern gullverðlaun og ein bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir þremur árum og því samtals 29 verðlaun á HM og ÓL. Hana vantar fern í viðbót til að ná Scherbo í samanlögðu á þessum tveimur mótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert