Cech var hetjan í fyrsta íshokkíleiknum (myndskeið)

Petr Cech sem knattspyrnumarkvörður.
Petr Cech sem knattspyrnumarkvörður. AFP

Petr Cech, markvörður Chelsea, Arsenal og tékkneska landsliðsins í knattspyrnu um langt árabil, sló í gegn í fyrsta opinbera íshokkíleik sínum í rúm tuttugu ár en hann hóf að æfa íshokkí á nýjan leik í sumar eftir að hafa lagt fótbolta-markmannshanskana á hilluna.

Cech þurfti að leggja íshokkíbúnaðinn til hliðar þegar hann var þrettán ára þar sem knattspyrnan var orðin of tímafrek til að hann gæti verið í báðum greinum. En Tékkinn hefur ávallt fylgst mjög vel með íþróttinni og nú æfir hann með enska liðinu Guildford Phoenix - og er líka markvörður á þeim vettvangi.

Cech spilaði í dag með varaliði félagsins gegn Swindon Wildcats. Leikurinn var æsispennandi, Cech varði nokkrum sinnum vel, og að lokum þurfti að grípa til bráðbana eftir að leikurinn endaði 2:2 og ekkert var skorað í framlengingu.

Þar var það Petr Cech sem réð úrslitum, varði tvívegis og í seinna skiptið tryggði hann Guildford Phoenix sigurinn, eins og sjá má hér fyrir neðan:

 Fjallað var sérstaklega um leikinn á heimasíðu Chelsea og þar var birt myndasyrpa af Cech úr leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert