Vill að Ísland gefi leikinn gegn Tyrkjum

Tyrknesku leikmennirnir heilsa að hermannasið.
Tyrknesku leikmennirnir heilsa að hermannasið. Ljósmynd/Tyrkneska knattspyrnusambandið

Illugi Jökulsson rithöfundur leggur til á Facebook að íslenska landsliðið mæti ekki til leiks gegn Tyrkjum ytra í næsta mánuði, fari svo að tyrkneska liðinu hafi ekki verið vísað úr keppni. Tilefnið eru fagnaðarlæti tyrkneskra leikmanna í leik liðsins gegn Albaníu fyrir helgi, en þar heilsuðu þeir að hermannasið og bættu síðar um betur og tileinkuðu sigurinn „hugrökkum hermönnum sínum og píslarvottum“ sem í síðustu viku réðust inn á áhrifasvæði Kúrda í Sýrlandi. UEFA hefur gefið út að fagnaðarlætin séu til skoðunar.

Ekki hlutverk KSÍ að setjast í dómarasætið

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segist ekki hafa séð umrædd fagnaðarlæti, en þó heyrt af þeim. Spurður út í hugmyndir Illuga segir hann það ekki vera hlutverk KSÍ að setjast í dómarasætið.

„Þetta er mál sem þarf að taka fyrir á vettvangi UEFA, en við ættum ekki að skipta okkur af því,“ segir Guðni sem segist þó ekki geta sagt til um hvort hann telji líklegt að tyrkneska liðinu verði refsað fyrir athæfið, enda hafi hann ekki kynnt sér málið til hlítar.

Guðni telur að þeir einu sem myndu græða á því að Íslendingar mættu ekki til leiks væru Tyrkir, sem yrði þar með dæmdur sigur. Íslendingar eiga þrjá leiki eftir í riðlinum, gegn Andorra heima á morgun, mánudag, gegn Tyrklandi ytra 14. nóvember og loks gegn Moldóvu 17. nóvember.

Eftir tap gegn Frökkum í síðasta leik er íslenska liðið sex stigum frá Frökkum og Tyrkjum á toppi riðilsins, og má lítið út af bregða ætli liðið sér að komast á Evrópumótið, sem haldið verður um víðan völl, næsta sumar.

mbl.is