Krefst uppsagnar vegna kynþáttaníðs

Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, er mjög ósáttur við atburði gærkvöldsins …
Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, er mjög ósáttur við atburði gærkvöldsins á Levski-vell­in­um í Sofiu. AFP

Boyko Borisov, forsætisráðherra Búlgaríu, krefst þess að forseti knattspyrnusambands landsins segi af sér eftir að tvívegis þurfti að stöðva leik Búlgaríu og Englands í undankeppni EM í gærkvöldi vegna rasisma búlgarskra stuðningsmanna.

„Ég legg hart að Borislav Mihaylov [forseta knattspyrnusambands Búlgaríu] að segja af sér á stundinni!“ skrifaði Borisov á Facebook. Hann bætti því við að það væri ómögulegt að tengja Búlgaríu við rasisma og útlendingahatur.

England vann leikinn 6:0 á Levski-vell­in­um í Sofiu. Forsætisráðherrann sagðist fordæma hegðun áhorfenda og fullyrti að Evrópusambandslandið Búlgaría væri eitt af víðsýnustu löndum í heimi.

Tvívegis þurfti að stöðva leikinn í fyrri hálfleik vegna rasisma …
Tvívegis þurfti að stöðva leikinn í fyrri hálfleik vegna rasisma stuðningsmanna Búlgaríu. AFP

Forsætisráðherrann bætti því við að ríkisstjórnin myndi slíta öll tengsl við búlgarska knattspyrnusambandið, þar á meðal fjárhagslegan stuðning, þar til Borislav Mihaylov segir af sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert