UEFA verður að stöðva fávitana

Hluti stuðningsmanna Búlgaríu á leiknum í gærkvöldi.
Hluti stuðningsmanna Búlgaríu á leiknum í gærkvöldi. AFP

Knatt­spyrnu­sam­band Evr­ópu, UEFA, er undir mikilli pressu að sýna viðbrögð við kynþáttaníði sem beindist gegn leikmönnum enska landsliðsins á Levski-vell­in­um í Sofiu í Búlgaríu í gærkvöldi.

Leikurinn var stöðvaður tvívegis í fyrri hálfleik en stuðningsmenn Búlgara gáfu frá sér apahljóð og heilsuðu að nasistasið.

Greg Cl­ar­ke, formaður enska knatt­spyrnu­sam­bands­ins, sagði að um væri að ræða eitt það hræðilegasta sem hann hefði orðið vitni að. Clarke hvatti UEFA til að rannsaka viðbjóðslegan rasismann fljótt og örugglega.

Raheem Sterling og Harry Kane fagna. Sterling skoraði tvö mörk …
Raheem Sterling og Harry Kane fagna. Sterling skoraði tvö mörk í 6:0-sigri Englands. AFP

Enski sóknarmaðurinn Raheem Sterling sagðist finna til með búlgörsku leikmönnunum vegna „fávitanna sem styðja þá“. Enski landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate sagði að ástandið væri óásættanlegt.

Southgate sagði að leikmenn hans hefðu sent skýr skilaboð, innan vallar og utan, með því að neita rasistunum að fara með sigur af hólmi.

Varnarmaðurinn Tyrone Mings lék sinn fyrsta landsleik í gærkvöldi. Hann varð fyrir kynþáttaníði strax í upphitun fyrir leikinn. 

„Ég held að allir hafi heyrt þetta. Við stóðum saman og tókum ákvörðun,“ sagði Mings.

Ensku leikmennirnir ræða við dómarann þegar hann stöðvaði leikinn í …
Ensku leikmennirnir ræða við dómarann þegar hann stöðvaði leikinn í annað af tveimur skiptum í fyrri hálfleik. AFP

Ivelin Popov, fyrirliði Búlgaríu, sást ræða við samlanda sína í leikhléi þar sem hann virtist hvetja þá til að láta af rasismanum. Enski sóknarmaðurinn Marcus Rashford hrósaði Popov fyrir hugrekkið.

Búlgarski landsliðsþjálfarinn Krasimir Balakov sagðist hins vegar telja að Popov hafi rætt um slaka frammistöðu liðsins við stuðningsmennina. Balakov sagðist ekki hafa orðið var við neitt kynþáttaníð á vellinum.

„Ég einbeitti mér að leiknum og heyrði ekkert en ef þetta er satt þá þurfum við að skammast okkar og biðjast afsökunar. Fyrst þarf þó að sanna málið,“ sagði Balakov. Fyrir leik sagði hann að rasismi væri stærra vandamál á Englandi en í Búlgaríu, þrátt fyrir að slík vandamál hefðu komið upp í Búlgaíu fyrr í undankeppni EM.

„Þetta var ekki ásættanlegt og hann verður að biðjast afsökunar,“ sagði Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og leikmaður enska liðsins, um Balakov.

Henderson sagði að Balakov neitaði að horfast í augu við sannleikann og sagði að Balakov þyrfti að biðjast afsökunar.

For­svars­menn „Kick it out“ hafa hvatt til þess að UEFA herði refsingar gegn kynþáttaníði þar sem lið myndu missa stig eða verða vísað úr keppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert