Sala hetjunnar olli hamförum

Wayne Gretzky og Bruce McNall þáverandi eigandi LA Kings þegar …
Wayne Gretzky og Bruce McNall þáverandi eigandi LA Kings þegar Gretzky var kynntur til sögunnar í Los Angeles. Reuters

Í sögustund íþróttablaðs Morgunblaðsins látum við hugann reika að þessu sinni tuttugu og fjögur ár aftur í tímann (þegar greinin var skrifuð) til borgarinnar Edmonton í Kanada. Þar riðu yfir eins konar hamfarir á þeim annars ágæta degi 9. ágúst 1988. Hamfarirnar voru þó ekki af náttúrulegum orsökum heldur var íshokkígoðsögnin Wayne Gretzky seld til Los Angeles Kings.

Salan á Gretzky var um margt merkileg enda hafa nokkrar heimildamyndir verðir gerðar um hana og þá sérstaklega þær afleiðingar sem hún hafði. Skemmst er frá því að segja að allt ætlaði um koll að keyra í borginni og víðar í Kanada. NHL-liðið Edmonton Oilers var stolt borgarbúa, og ekki að ástæðulausu, því þegar þarna var komið sögu hafði liðið unnið Stanley-bikarinn fjórum sinnum á fimm árum. Gretzky átti ekki lítinn þátt í þessari velgengni en hann er handhafi fjölmargra meta í NHL-deildinni og iðulega nefndur til sögunnar sem snjallasti íshokkíleikmaður sem uppi hefur verið.

Málið tekið upp í þinginu

Ekki er ofsagt að segja að mikil reiði hafi brotist út í Edmonton þegar greint var frá sölunni sem Ameríkanar kalla þó skipti. Raunar er þessi atburður svo umtalaður að hann er gjarnan kallaður „The trade“ sem mætti þýða sem félagaskiptin á íslensku. Til marks um alvöru málsins, þá krafðist leiðtogi nýja demókrataflokksins í neðri deild kanadíska þingsins, Nelson Riis, að stjórnvöld beittu sér í málinu og kæmu í veg fyrir söluna.

Wayne Gretzky vann Stanley bikarinn fjórum sinnum með Edmonton Oilers.
Wayne Gretzky vann Stanley bikarinn fjórum sinnum með Edmonton Oilers. Reuters

Reiði stuðningsmanna Edmonton beindist að einhverju leyti að Gretzky sjálfum og var litið á hann sem svikara. Besti leikmaður þessarar stoltu íshokkíþjóðar hafði ákveðið að yfirgefa Kanada til þess að spila í Bandaríkjunum. Slíkt þótti ekki til eftirbreytni á þeim tíma og þykir kannski ekki enn. Reiðin beindist þó í ríkari mæli að Peter Pocklington, eiganda liðsins, og einnig eiginkonu Gretzkys, Janet, sem var leikkona og bjó í Hollywood. Þau voru nýgift og höfðu einungis verið saman í rúmt ár.

Edmonton átti frumkvæðið

Margt bendir þó til þess að forráðamenn Edmonton Oilers hafi átt frumkvæðið að því að selja Gretzky. Eigandinn Pocklington var víst á höttunum eftir skotsilfri þar sem ýmis önnur viðskipti hans höfðu farið illa. Miklir peningar fóru nefnilega á milli félaganna fyrir utan leikmenn og valrétti í háskólavalinu. Edmonton hafði einungis verið NHL-meistari í tvo klukkutíma árið 1988 þegar faðir Gretzkys mun hafa tilkynnt honum að Edmonton væri að skoða þann möguleika að selja hann. Í kjölfarið blandaði Gretzky sér í málið og Los Angeles Kings varð ofan á en fleiri félög komu til greina, alla vega frá sjónarhóli Edmonton.

Blaðamannafundurinn tók heldur betur á fyrir Gretzky þegar hann ætlaði …
Blaðamannafundurinn tók heldur betur á fyrir Gretzky þegar hann ætlaði að kveðja Edmonton en kom varla upp orði. nhl.com

Gretzky náði að koma því til leiðar að taka með sér tvo leikmenn frá Edmonton, Marty McSorley and Mike Krushelnyski. Sá fyrrnefndi var eins konar lífvörður Gretzkys í leikjum. Ef menn áttu eitthvað vantalað við ofurstjörnuna á ísnum var McSorley sjaldnast langt undan. Ef leysa þurfti úr deilumálum með handalögmálum sá hann alfarið um slíkt fyrir hönd Gretzkys. Edmonton fékk í staðinn tvo leikmenn, fyrstu valrétti LA Kings í þrjú ár og 15 milljónir dollara.

Sá langbesti að mati Moggans

Morgunblaðið fjallaði um söluna á Gretzky daginn eftir og þar stendur meðal annars. „Því má bæta við að á þeim níu árum sem hann hefur leikið í NHL-deildinni hefur Gretzky átta sinnum verið kjörinn besti leikmaður ársins. Frábær leikmaður, eða eins og íslenskur ísknattleiksáhugamaður sem Morgunblaðið ræddi við í gærkvöldi orðaði það: „Það er ekki hægt að segja að Gretzky sé sá besti – hann er sá langbesti.““

Stuðningsmenn Edmonton snéru ekki baki við Gretzky þó að þeir hafi aldrei sætt sig við félagaskiptin. Að tímabilinu 1988-1989 loknu var afhjúpuð glæsileg stytta af Gretzky þar sem kappinn er meitlaður í brons og hampar þar Stanley-bikarnum. Styttan er í fullri stærð og stendur fyrir utan heimavöll Edmonton Oilers, Northlands Coliseum. Eigandinn Peter Pocklington hafði ekki fengið jafn blíðlega meðferð, því þegar tilkynnt var um söluna á Gretzky, brenndu stuðningsmenn Edmonton brúður af Pocklington fyrir utan leikvanginn í mótmælaskyni.

Íshokkí í Los Angeles?

Viðbrögðin við sölunni, og dramatíkin í kringum hana, er kapítuli út af fyrir sig og sem dæmi var Wayne Grezky ekki viðræðuhæfur á blaðamannafundinum vegna táraflóðs og þurfti frá hljóðnemanum að hverfa. Hann tók þó fulla ábyrgð á hamförunum og sagðist eiga það skilið að vera hæst launaði leikmaður deildarinnar en dæmi voru um að leikmenn í NHL væru með fjórum sinnum hærri laun en Gretzky. 

Forsíða íþróttatímaritsins kunna Sports Illustrated eftir að Gretzky færði sig …
Forsíða íþróttatímaritsins kunna Sports Illustrated eftir að Gretzky færði sig til LA Kings en í blaðinu býður Magic Johnson, leikmaður LA Lakers á þeim tíma, kanadísku stjörnuna velkomna til borgarinnar.

Það sem er hins vegar enn merkilegra við söluna er hversu mikil áhrif hún hafði á þessa sterku atvinnumannadeild.

Los Angeles? hváðu íshokkíunnendur þegar salan var tilkynnt á sínum tíma. Fjölmiðlar hefðu allt eins getað tilkynnt að Gretzky væri á leiðinni til tunglsins til að spila. Íshokkíáhuginn í borg englanna var svo gott sem enginn og árangur LA Kings var ekki glæsilegur. Eigandi liðsins Bruce McNall var hins vegar metnaðarfullur og hafði skömmu áður lokið við að kaupa LA Kings af Jerry Buss sem átti bæði LA Kings og LA Lakers um tíma.

Miðasalan tók kipp

Félagaskiptin höfðu mikil áhrif á gengi þessara tveggja liða sem um ræðir. Edmonton vann einn meistaratitil til viðbótar árið 1990 en síðan ekki söguna meir. Mikill íshokkíáhugi gerði hins vegar vart við sig í Los Angeles og á skömmum tíma seldust fjögur þúsund ársmiðar. Íþróttaáhugamenn í borginni vissu lítið um NHL eða Kings-liðið en langaði að sjá þennan Wayne-náunga. LA Kings tókst nokkrum sinnum að fylla Forum-höllina glæsilegu eftir að Gretzky fór að leika listir sínar á ísnum.

Honum tókst þó ekki að gera LA Kings að meisturum en liðið komst samt alla leið í úrslit og lék um Stanley-bikarinn árið 1993. Liðið tapaði þar fyrir Montreal Canadiens en þrír leikir töpuðust í framlengingu og var um að ræða besta árangur í sögu félagsins (þar til liðið vann Stanley bikarinn vorið 2012).

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. febrúar 2012

Gretzky ásamt tengdasyni sínum, Bandaríkjamanninum Dustin Johnson, sem er í …
Gretzky ásamt tengdasyni sínum, Bandaríkjamanninum Dustin Johnson, sem er í 3. sæti heimslistans í golfi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert