Við fengum smá sjokk í fyrra

„Við fengum smá sjokk í fyrra,“ segir Konráð Valur Gíslason mótshaldari á Iceland Open sem verður haldið í annað skipti á morgun í Laugardalshöll. Sterkir erlendir keppendur fjölmenntu á mótið og hirtu eftirsóttustu verðlaunin í Fitness-greinunum.

Í ár eru 160 keppendur skráðir til leiks frá 22 þjóðum sem hann segir algerlega einstakt hér á landi. Það er því búist við harðri keppni í Fitness og íslenskir keppendur ætla sér að veita þeim verðuga samkeppni enda eru svokölluð Pro-kort í boði sem geta gjörbreytt ferli keppendanna og fleytt þeim á atvinnumannastigið.

Aðrar greinar eru aflraunir Hafþórs Júlíussonar, Thor's Power Challenge, þar sem búast má við að sjá gríðarlegar þyngdir fara á loft. Þá verða 12 hnefaleikabardagar í Höllinni og sýningar á  Pole-fitness. 

Í myndskeiðinu er rætt við Konráð og nokkra Fitness-keppendur sem hafa æft allt upp í 12 sinnum í viku undanfarnar vikur til að undirbúa sig fyrir stóra daginn.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Iceland Open.

mbl.is